Sveinbjörn Pétursson, markvörður Akureyrar, hefur verið valinn í A-landslið karla í handbolta fyrir World Cup 2010 sem fram fer í Svíþjóð, dagana 7.-8. desember næstkomandi. Hópurinn var tilkynntur í dag og eru einnig þeir Bjarni Fritzson og Oddur Gretarsson frá Akureyri í liðinu. Sveinbjörn er nýliði í hópnum ásamt Atla Ævari Ingólfssyni frá HK. Auk Íslands leika Danmörk, Svíþjóð og Noregur á mótinu.
Þar sem ekki er um að ræða alþjóðlega leikviku eiga ekki allir leikmenn heimangengt. Björgvin Páll Gústavsson, Hreiðar Levý Guðmundsson og Þórir Ólafsson eiga allir leiki með sínum félagsliðum, Ólafur Stefánsson og Vignir Svavarsson fá frí af persónulegum ástæðum og Guðjón Valur Sigurðsson er að stíga uppúr meiðslum.
Ísland leikur þriðjudaginn 7.desember við Svíþjóð kl.19.30 að íslenskum tíma og mætir svo annað hvort Noregi eða Danmörku daginn eftir kl.17.30.
Hópurinn er eftirfarandi:
Markmenn:
Birkir Ívar Guðmundsson - 138 landsleikir - Haukar
Sveinbjörn Pétursson - Nýliði - Akureyri
Aðrir leikmenn:
Alexander Petersson - 107 landsleikir - Fuchse Berlin
Arnór Atlason - 97 landsleikir - AG Köbenhavn
Arnór Þór Gunnarsson - 8 landsleikir - TV Bittenfeld
Aron Pálmarsson - 25 landsleikir - THW Kiel
Atli Ævar Ingólfsson - Nýliði - HK
Ásgeir Örn Hallgrímsson - 132 landsleikir - Hannover-Burgdorf
Bjarni Fritzson - 39 landsleikir - Akureyri
Ingimundur Ingimundarson - 79 landsleikir - AaB
Oddur Gretarsson - 7 landsleikir - Akureyri
Róbert Gunnarsson - 172 landsleikir - Rhein Neckar Löwen
Sigurbergur Sveinsson - 27 landsleikir - Rheinland
Snorri Steinn Guðjónsson - 166 landsleikir - AG Köbenhavn
Sturla Ásgeirsson - 53 landsleikir - Valur
Sverre Jakobsson - 94 landsleikir - Grosswallstadt