Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í marki Íslands sem lagði Noreg örugglega að velli, 35:29, í leiknum um þriðja sætið á Heimsbikarmóti karla í handbolta í kvöld. Staðan í hálfleik var 18:16 fyrir Ísland. Sveinbjörn varði 19 skot í leiknum en þetta var aðeins hans annar landsleikur.
Hinir Akureyringarnir í íslenska liðinu, þeir Oddur Gretarsson og Bjarni Fritzson, skoruðu báðir sitt markið hver. Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur með 8 mörk og Arnór Atlason skoraði 7 mörk.
Það er ekki hægt að segja annað en að þeir Sveinbjörn og Oddur hafi minnt verulega á sig í landsleikjunum tveimur og gefið Guðmundi Guðmundssyni, landsliðsþjálfara, fleiri kosti þegar endanlegur HM-hópur verður valinn.