Sveinbjörg myndskreytti bók um Hrafna-Flóka

Nú um mánaðamótin kemur út í Noregi, heimildaskáldsaga um Hrafna-Flóka, sem gefin er út af forlagi í Osló. Höfundurinn, Sylvelin Vatle, er þekktur barna- og unglingarithöfundur í Noregi en myndskreyting bókarinnar var í höndum Sveinbjargar Hallgrímsdóttur myndlistarmanns á Akureyri.  

Sveinbjörg sagði að þetta hafi verið skemmtileg vinna og krefjandi en myndirnar eru litskrúðugar tréristur. Sveinbjörg segir að þessi vinna hafi tekið um eitt ár og að vinnudagarnir hafi jafnan verið langir. Um eitt og hálft ár er hins vegar frá að haft var samband við hana. Í bókinni er landnmámssaga Hrafna-Flóka sögð af miðdóttur hans, Þjóðgerði. Sveinbjörg segir að áætlað sé að bókin komi út í íslenskri þýðingu hér á landi næsta vor. Í tengslum við útkomu bókarinnar í Noregi verður jafnframt sett upp sýning á myndum Sveinbjargar í bókinni og fleiri verkum hennar.

Sveinbjörg segir að frumkvöðlar í sveitarfélaginu Sveio í Noregi, en þaðan sigldi Hrafna-Flóki til Íslands, hafi ákveðið að ráðast í útgáfu bókarinnar og þá ekki síst til þess að vekja áhuga barna og ungmenna á landsnámsmanninum. Hrafna-Flóki sé ekki eins þekktur í Noregi og á Íslandi.

Sveinbjörg segir að upphaflega hafi verið leitað til Kristínar Þorkelsdóttur um að myndskreyta bókina. Kristín hafi gefið það frá sér en bent á sig, þar sem Sveinbjörg hefur hún unnið mikið með hrafna í sínum verkum í gegnum tíðina. Sveinbjörg fór erlendis og hitti þá sem að málum koma en einnig hafa þeir komið hingað til lands til skrafs og ráðagerða og til að heimsækja söguslóðir landnámsmannsins.

Nýjast