Styrktargangan Göngum saman í Kjarnaskógi á sunnudag

Sunnudaginn 5. september verður árleg styrktarganga Göngum saman. Í  ár verður gengið á sjö stöðum á landinu, Akureyri, Reykjavík, Patreksfirði, Ísafirði, Hólum í Hjaltadal, Reyðarfirði og Höfn.    

Þátttakendur eru beðnir um að greiða kr. 3.000 og renna göngugjöldin óskipt í styrktarsjóð félagsins. Öll vinna við undirbúning og framkvæmd er unnin af sjálfboðaliðum. Á Akureyri verður gengið í Kjarnaskógi. Lagt verður af stað kl. 11:00 frá hátíðasvæðinu ofan við aðalleiksvæðið. Boðið verður upp á þrjár vegalengdir, 2,2 km, 4 km og 6 km.  Hressing að göngu lokinni.

Göngum saman

Göngum saman á rætur í grasrótarstarfi 22ja kvenna sem tóku þátt í Avon göngu í New York í október 2007 en þar var gengið til fjáröflunar fyrir rannsóknir og meðferð á brjóstakrabbameini. Upphafsmaður er dr. Gunnhildur Óskarsdóttir en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir rúmum áratug síðan. Í september 2007 var styrktarfélagið Göngum saman formlega stofnað og stefnan sett á að veita árlega rannsóknarstyrki. Fjöldi félaga nálgast nú fjórða hundraðið.

Í október mun Göngum saman veita íslenskum rannsóknaraðilum styrki að fjárhæð kr. 5.000.000. Þetta er fjórða árið sem félagið veitir styrki en frá stofnun hefur Göngum saman úthlutað alls 12 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Hópurinn hefur lagt áherslu á gildi hreyfingar og eru göngur jafnan ríkur þáttur í fjáröflun félagsins. Göngur eru ekki einungis fjáröflunarleið, félagsmenn ganga saman vikulega sér til heilsubótar og nú á fjórum stöðum á landinu, á Akureyri, Reykjavík, Borgarnesi og Dalvík og eru göngurnar auglýstar á heimasíðu  félagsins.

Styrktargangan í september er helsta fjáröflunarleiðin og mikilvægt að sem flestir taki þátt.  Brjóstakrabbamein snertir fleiri en þá sem greinast og líklega er vandfundinn sá Íslendingur sem sjúkdómurinn hefur látið ósnortinn. Á Íslandi fer nú fram öflugt rannsóknarstarf sem vert er að styrkja.

Nánari upplýsingar um göngurnar er að finna á  http://www.gongumsaman.is/  undir Stóra gangan

Nýjast