Stúlkur frá Akureyri í bílveltu

Þrjár  18 ára stúlkur frá Akureyri sluppu betur en á horfðist þegar bíll þeirra  valt skammt norðan við flugvöllinn á Blönduósi upp úr klukkan átta í kvöld.  Engin stúlknanna  er slösuð samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi, en þær voru fluttar með sjúkrabíl til aðhlynningar á sjúkrahúsið á Blönduósi. Bíllinn mun hafa runnið til í hálku og valt eina veltu og endaði utan vegar á hliðinni.

Stúlkurnar komust út um framdyr á bílnum. Eftir að stúlkurnar voru komnar út úr bílnum og vegfarendur höfðu komið á vettvang, kom upp eldur í bílnum og slökkvilið staðarins kom strax á vettvang. Bíllinn er talinn gjörónýtur.

Nýjast