Strætisvagn SVA knúinn af lífdísil sem framleiddur er á Akureyri

Orkey ehf., Mannvit og Strætisvagnar Akureyrar hófu í dag samstarfsverkefni, sem gengur út á að einn af strætisvögnum SVA mun verða knúinn af lífdísil, framleiddum í tilraunaverksmiðju Mannvits og Orkeyjar á Akureyri. Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri skrifaði jafnframt undir viljayfirlýsingu um að Akureyrarbær styðji þetta verkefni með því að kaupa lífdísil á sínar bifreiðar og tæki, frá lífdísilverksmiðju Orkeyjar sem mun taka til starfa um næstu áramót.  

Fyrirtækið Orkey ehf. var stofnað í febrúar árið 2007 og hefur síðan þá kannað ýmsa möguleika á framleiðslu lífdísils - jafnt úr erlendu sem innlendu hráefni. Á næstu mánuðum mun fyrirtækið hefja framleiðslu a.m.k. 300 tonnum af lífdísil á ársgrundvelli, sem að mestu verður unninn úr úrgangssteikingarolíu og feiti, en einnig öðrum úrgangi. Áætlað er að fyrst um sinn muni starfsemi Orkeyjar skapa 2-3 ársverk auk nokkrurra afleiddra starfa. Verkfræðistofan Mannvit hefur veitt Orkey, allt frá stofnun, faglega ráðgjöf ásamt því að þróa og hanna framleiðsluferlið. Undanfarin misseri hefur farið fram tilraunaframleiðsla á lífdísil á rannsóknastofu Mannvits á Akureyri og hefur verkefnið m.a. verið styrkt af Vaxtarsamningi Eyjafjarðar. Tækjabúnaðurinn í verksmiðju Orkeyjar verður að stærstum hluta smíðaður á Akureyri. Tilgangur fyrirtækisins er að stuðla að sjálfbærri framleiðslu og notkun endurnýjanlegra orkugjafa og mun fyrirtækið leitast við að taka þátt í framförum á því sviði.

Hluthafar Orkeyjar eru tólf taldins. Þeir eru Aura Mare, N1, Stofnverk, Tækifæri, Arngrímur Jóhannsson, Hafnasamlag Norðurlands, Mannvit, Norðurorka, Brim, HB Grandi, Höldur og LÍÚ.

Nýjast