Stórmót í frjálsíþróttum haldið á Akureyri

Norðurlandamót unglinga í frjálsíþróttum, undir 20 ára, verður haldið á Þórsvelli á Akureyri, dagana 28.-29. ágúst næstkomandi. Von er á rúmlega 200 efnilegustu frjálsíþróttamönnum Norðurlandanna sem munu etja kappi í hinum ýmsu greinum frjálsíþróttanna. Þá verður einnig keppt í göngu sem er nýlunda á frjálsíþróttamótum hér á landi.

Ísland og Danmörk eru með sameiginlegt lið en annars eru tveir keppendur frá hverju landi í grein. Von er á einni efnilegustu sjöþrautarkona heims á mótið, Helgu Margréti Þorsteinsdóttur frá Íslandi, en hún undirbýr sig núna fyrir HM í fjölþrautum undir 20 ára sem fer fram í lok júlí í Kanada. Ungmennasamband Eyjafjarðar og Ungmennafélag Akureyrar eru framkvæmdaaðilar mótsins. Þar er öll aðstaða til fyrirmyndar og starfsfólk tilbúið eftir góða þjálfun á Landsmóti UMFÍ 2009. Mótið fellur inní dagskrá Akureyrarvöku og munu keppendur og fylgdarlið eflaust setja svip sinn á bæinn. Lokaatriði mótsins verður keppni milli Norðurlandanna í kirkjutröppuhlaupi sunnudaginn 29. ágúst. 

Nýjast