Stjórn Akureyrarstofu ber fullt traust til forsvarsmanna SN

Stjórn Akureyrarstofu ber fullt traust til stjórnar, framkvæmdastjóra og hljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þetta kemur fram í bókun frá síðasta fundi stjórnarinnar.  

Á fundi stjórnar Akureyrarstofu var lagt fram til umræðu erindi Þórarins Stefánssonar tónlistarmanns varðandi tónlistarmál á Akureyri.  Þar varpar Þórarinn m.a. fram spurningum og vangaveltum sem grundvelli umræðu og skoðanaskipta í þeim tilgangi að styrkja tónlistarlífið til framtíðar. Hann gagnrýnir einnig ýmislegt í starfi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Í bókun stjórnar Akureyrarstofu kemur einnig fram að í samningi um samstarf ríkis og Akureyrarbæjar um menningarmál séu samningsaðilar sammála um að eitt af meginverkefnum hans sé að efla starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands (SN). Stjórn Akureyrarstofu telur að með flutningi SN og Tónlistarskólans á Akureyri í menningarhúsið HOF á næsta ári opnist margvísleg ný og aukin tækifæri fyrir tónlistarfólk á Akureyri og Norðurlandi öllu.

Nýjast