„Ég er eiginlega betri í hnénu en ég bjóst við,” segir Íris Guðmundsdóttir, landsliðskona í alpagreinum, en hún er byrjuð að æfa á nýjan leik eftir meiðsli. Íris meiddist illa á hné við æfingar í Sviss í lok ágúst þar sem hún skaddaðist á krossbandi, liðbandi og liðþófa. Íris er búsett í Noregi þar sem hún reynir nú að ná sínu fyrra formi og styrkja hnéð, en hún hefur misst mikið úr undirbúningstímabilinu í vetur.
„Ég fór fyrst á skíðin sl. helgi og var undanfari á mótunum sem voru hér um helgina. Ég skíðaði bara ágætlega og kem bara nokkuð góð undan meiðslunum. Ég var svolítið stressuð áður en ég fór á skíðin en þetta gekk bara vel,” segir hún. Íris segir veturinn óskrifað blað þar sem meiðslin hafa sett strik í reikninginn. Hún stefnir þó á að taka þátt á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Þýskalandi í febrúar á næsta ári.
„Ég ætlaði að keppa á einu Heimsbikarmóti en það breytist líklega. Ég veit ekki hvort ég hafi eitthvað að gera þar, þar sem formið verður sennilega ekki það besta. Ég er hins vegar að vonast eftir að komast á HM fullorðna í Þýskalandi. Það er markmiðið og vonandi verð ég kominn í gott form þá. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort ég keppi eitthvað í Evrópu. Það er allt opið.”
Íris dvaldi hér á landi í þrjár vikur sl. október en hún segist ekki reikna með að fara í margar keppnisferðir til Íslands í vetur. „Ég verð þó allavega á Skíðalandsmótinu rétt fyrir páska, en annars er svo dýrt að koma til Íslands. Það verða kannski einhver mót í desember en ég reikna ekki með því að koma þá," segir hún.