Staða rektors við Háskólann á Akureyri auglýst laus til umsóknar

Nýr rektor verður skipaður við Háskólann á Akureyri næsta sumar en staða rektors var auglýst laus til umsóknar í dagblöðum um helgina. Þorsteinn Gunnarsson rektor HA kynnti á háskólaráðsfundi í byrjun nóvember sl., þá ákvörðun sína að hætta störfum þegar ráðningartímabili hans lýkur 5. maí nk.  Þorsteinn hefur starfað sem rektor HA í næstum 15 ár.  

Í auglýsingu um stöðuna kemur m.a. að fram að rektor sé formaður háskólaráðs, yfirmaður stjórnsýslu skólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Þá ber rektor ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra deilda og stofnana. Leitað er að einstaklingi með doktorspróf, með víðtæka reynslu af kennslu og rannsóknum, rekstri og stjórnun. Umsóknarfrestur um stöðu rektors er til 10. febrúar nk. en gert er ráð fyrir að skipað verði í starfið frá og með 1. júlí nk.

Nýjast