SR vann dramatískan 5:4 sigur á SA Jötnum í framlengdum leik er liðin mættust í kvöld í Laugardalnum á Íslandsmóti karla í íshokkí. SR jafnaði metin í 4:4 þegar ein og hálf mínúta var eftir af þriðja og síðasta leikhluta. SR skoraði svo gullmark fljótlega í framlengingunni og þar með hafa SR-ingar jafnað SA Víkinga að stigum.
SR hefur 27 stig eftir 12 leiki líkt og SA Víkingar. SA Jötnar eru hins vegar í fjórða og neðsta sæti með sjö stig.
Mörk SA Jötna í leiknum skoruðu þeir Birgir Sveinsson, Josh Gribben, Stefán Hrafnsson og Ingvar Jónsson.
Fyrir SR skoraði Egill Þormóðsson tvívegis og þeir Tómas Ómarsson, Svavar Rúnarsson og Pétur Macck sitt markið hver.