Á aðalfundi Sparisjóðs Þingeyinga var tilkynnt ákvörðun um að veita Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) styrk til tækjakaupa að fjárhæð kr 4.000.000,-. Styrkveitingin er í samræmi við stefnu Sparisjóðsins að styðja við samfélagið á svæðinu.
Að sögn Arnar Arnars Óskarssonar, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Þingeyinga, er þessi styrkveiting liður í samfélagsábyrgð sjóðsins og hluti af stefnu hans um að efla grunnstoðir samfélagsins. „Við hjá Sparisjóðnum leggjum sérstaka áherslu á að styðja við mikilvæga innviði, og heilbrigðisþjónustan er sannarlega þar á meðal. Við teljum að styrkurinn muni nýtast HSN til að bæta þjónustu við íbúa svæðisins,“ segir Örn.
Styrktarfélag HSN í Þingeyjarsýslum er viðtakandi styrksins, en félagið hefur þann tilgang að afla HSN fjár til tækjakaupa. Daníel Borgþórsson, formaður stjórnar Styrktarfélagsins segir styrkinn frá Sparisjóðnum afar mikilvægan og nú þegar hafi sjóðurinn keypt 10 tæki fyrir um kr 4.000.000,- Tækin sem um ræðir eru:Blóðþrýstingsmælar á hjólum 3 stk. – fara á heilsugæslustöðvarnar á Þórshöfn, Raufarhöfn og Húsavík, blöðruskanni á Þórshöfn, hjartalínuritstæki á Kópasker, tvær vökvadælur á sjúkradeild og göngudeild á Húsavík, blóðrauðamælir í Mývatnssveit, blóðgasamælir og heyrnarmælir á Húsavík.
,,Um leið og ég þakka Sparisjóði Þingeyinga kærlega fyrir þennan myndarlega stuðning við HSN þá vil ég hvetja öll til að gerast félagar í Styrktarfélaginu og styðja þannig við bætta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, sem við flest þurfum á að halda einhvern tíma á lífsleiðinni. Einfaldast er að finna facebooksíðuna okkar en þar er skráningareyðblað. Eins vil ég nota tækifærið til að minna á að Styrktarfélagið er almannaheillafélag sem þýðir að fyrirtæki og einstaklingar sem styrkja sjóðinn umfram upphæð árgjalds, njóta skattafrádráttar fyrir styrkupphæðinni."
Áslaug Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri HSN, segir nýju tækin koma sér afar vel. „Styrkveitingin gerir okkur kleift að efla þjónustu okkar og bæta aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk. Við þökkum Sparisjóði Þingeyinga innilega fyrir þetta mikilvæga framlag sem mun koma samfélaginu öllu til góða,“ segir Áslaug.
Sparisjóður Þingeyinga leggur áherslu á að styðja við mikilvæg samfélagsverkefni í heimabyggð.