Ályktun vegna niðurlagningar heilsueflandi heimsókna hjá HSN

Frá Eyjafjarðarsveit   Mynd  MÞÞ
Frá Eyjafjarðarsveit Mynd MÞÞ

Haustfundur Kvenfélagsins Iðunnar í Eyjafjarðarsveit, haldinn 25. september 2025, sendir eftirfarandi áskorun til framkvæmdastjórnar HSN.

Við lýsum áhyggjum og andstöðu við ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) um að leggja niður heilsueflandi heimsóknir til eldri borgara frá og með 1. ágúst 2025.

Heilsueflandi heimsóknir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í því að styðja eldra fólk til að viðhalda sjálfstæði, heilsu og félagslegri virkni. Þær hafa veitt fræðslu, ráðgjöf og tengingu við samfélagið og þjónustuúrræði og þannig stuðlað að forvörnum, trausti og aukinni vellíðan. Þær hafa verið í samræmi við stefnu stjórnvalda um að efla þjónustu við aldraða í heimahúsum og draga þannig úr þörf fyrir dýrari og flóknari þjónustu síðar.

Við teljum að rök HSN fyrir niðurlagningu heimsóknanna — svo sem takmörkuð þátttaka og forgangsröðun til veikara hóps — endurspegli ekki nægilega mikilvægi forvarna og félagslegs stuðnings heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar almennt. Þó að sumir afþakki heimsóknir, sýnir það ekki að þjónustan sé óþörf, heldur að hún þurfi að vera sveigjanleg og aðgengileg. Að leggja niður þessa þjónustu getur leitt til aukinnar einangrunar, versnandi heilsu og þarfa fyrir kostnaðarsamari úrræði.

Við hvetjum HSN til að endurskoða ákvörðunina og íhuga að þróa þjónustuna frekar í samstarfi við sveitarfélög og félagsþjónustu, með það að markmiði að styðja eldra fólk til að búa heima eins lengi og kostur er við góð lífsgæði."

Nýjast