Að breyta plaststól í leðurstól

Heiðrún E Jónsdóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag
Heiðrún E Jónsdóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag

Í minningunni var allt auðveldara á yngri árum, var ekki þá að velta skoðana skiptum mikið fyrir mér. Ég var þó ekki há í loftinu þegar ég áttaði mig á því að lífið væri ekki alltaf einfalt.

Nauðsyn mismunandi skoðana
 
Ég hef gaman að skoðanaskiptum og tel það grundvöll þess að teknar séu góðar og upplýstar ákvarðanir, hvort sem er í dómsal, í viðskiptum eða í einkalífi. Í einstaka tilvikum hef ég þó lent í þrátefli við aðila, og skiptir engu hversu mjög ég rökræði við viðkomandi, þá verður afstöðu þeirra ekki haggað, já og ekki minni afstöðu heldur, en látum það liggja milli hluta.
 
Ný sýn - leðurstóllinn
 
Ég ræddi þetta við vin minn endur fyrir löngu. Það sneri að persónulegu máli með hagsmuni þess einstaklings að leiðarljós. Hvorki ég né aðrir nánir honum náðum að koma til hjálpar.
Eftir að hafa rakið áhyggjur mínar horfði vinur minn á mig um stund, og benti mér síðan á hið augljósa. Maður getur verið með öll heimsins bestu rök og hinn besta ásetning, en hversu lengi sem maður rökræðir og reynir að tala um fyrir viðkomandi, þá breytir maður einfaldlega ekki plaststól í leðurstól með röksemdafærslu. Það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður.
 
Berja höfðinu við stein, kúla og höfuðverkur
 
Að halda áfram að berja höfðinu við steininn gerir ekkert gagn, maður fær einfaldlega kúlu og höfuðverk. Hversu vel meinandi sem maður er, þá getum við ekki borið ábyrgð á ákvörðunum fullorðinni einstaklinga, og sannarlega ekki breytt þeim, nema þeir sjálfir vilja, jafnvel þótt við blasi að þeir séu á hættulegri braut.
 
Það er val hvert við beinum orku okkar
 
Við getum vissulega verið til staðar fyrir vini og vandamenn, en við getum aldrei borið ábyrgð á þeirra ákvörðunum. Í stað þess að eyða orku okkar í vonlausa baráttu þá nýtum við hana þar sem hennar er þörf og eftir henni óskað.
Já svo er alltaf gott að huga að eigin vandamálum en ekki skipta sér að vandamálum annarra, nema þess sé óskað.
 
Kveðja, Heiðrún
 

Nýjast