4000 fundir hjá Rótarýklúbbi Akureyrar frá árinu 1938

Félagsmenn á fundi Rótarýklúbbs Akureyrar, en hann var númer 4000 í röðinni frá því klúbburinn var s…
Félagsmenn á fundi Rótarýklúbbs Akureyrar, en hann var númer 4000 í röðinni frá því klúbburinn var stofnaður árið 1938 Myndir Óskar Ægir Benediktsson

Félagar í Rótarýklúbbi Akureyrar komu saman í liðinni viku og héldu hátíðlegan fund númer 4000. Klúbburinn var stofnaður árið 1938 og er því 87 ára gamall, en formlegur stofnfundur var haldinn í byrjun september það ár. Rótarýklúbburinn er starfsgreinaklúbbur og leitast er við að í honum sé fólk úr sem flestum starfsgreinum Mikið er lagt upp úr því að heimsækja fyrirtæki og stofnanir til að kynnast fjölbreyttri starfsemi í bæjarfélaginu og víðar.

Ólafur Jónsson forseti Rótarýklúbbs Akureyrar segir klúbbinn styrkja hin ýmsu málefni, m.a. alþjóðleg verkefni sem vinna gegn ólæsi og til að útrýma lömunarveiki í heiminum. Á heimavelli hafa klúbbfélagar stutt ýmis verkefni, m.a. í samvinnu við félagsmálayfirvöld í bænum en sjónum hefur verið beint að verkefnum sem tengjast börnum í vanda. Þá styrkir klúbburinn börn nýbúa til að sækja Vísindaskóla unga fólksins. Klúbbfélagar taka árlega þátt í Plokkdeginum að vorlagi sem og skiptinemaverkefni. Hann segir Rótarýklúbbinn ekki standa fyrir sölu af neinu tagi eða söfnunum. „Við höfum ekki viljað fara inn á svið annarra klúbba þannig að framlög koma beint frá félögunum sjálfum,“ segir Ólafur.

Konum hefur fjölgað hin síðari ár

Fundir voru fyrstu árin haldnir í skrifstofuhúsi KEA en frá því um miðjan fimmta áratuginn þegar Hótel KEA var risið færðust fundir þangað. Samleið Rótarýklúbbsins og Hótel KEA er því orðin löng því enn hittast klúbbfélagar þar, en nú á miðvikudagskvöldum. Rótarýklúbbur Akureyrar var með þeim fyrstu sem bauð konum inngöngu, en allt til ársins 1999 var hann eingöngu skipaður körlum. Ólafur segir að konum hafi fjölgað innan klúbbsins hin síðari ár. Klúbbfélagar eru nú um 30 talsins, þar af 13 konur. „Markmiðið er að halda kynjahlutfallinu nokkuð jöfnu,“ segir hann.

Mikil vinna lögð í Botnsreit

Félagar hafa um árin lagt mikla vinnu í Botnsreit í Eyjafjarðarsveit, en hann er um 7,5 hektarar að stærð og er hann öllum opin. Ræktun hófst árið 1951 og hafa um 50 þúsund plöntur verið gróðursettar frá þeim tíma. Telur Ólafur það hafa verið fyrir tilstilli Guðmundar Karls Péturssonar, yfirlæknis, að Rótarýklúbburinn kom inn í verkefnið í Botnsreit. Hann var félagi í klúbbnum og mikill áhugamaður um skógrækt, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga frá 1949 og um langa hríð. Menntaskólanemar tóku þátt í gróðursetningu að Botni um árabil, eða frá því upp úr 1960 og sá um það verkefni um nokkurt skeið. Hin síðari ár hefur Rótarýklúbburinn einn sé um reitinn.

Hermannshöll, glæsilegur trjákofi var reistur í Botnsreit til heiðurs Hermanni Sigtryggssyni í tilefni 90 ára afmælis hans.  Hermann á lengstan feril að baki i Rotaryklubb Akureyrar 61ár

Fura er áberandi

Reiturinn er mjög blandaður en fura er talsvert áberandi. Um 16500 bergfurur eru í Botnsreit,

3.325 birkiplöntur, 2.350 blágreniplöntur og 2.300 rauðgreniplöntur. Þá hefur nokkuð verið gróðursett af skógarfuru, sitkagreni, stafafuru, lerki og hvítgreni. Um allmörg ár var skógræktinni ekki mikið sinnt, en gróðurinn sem kominn var óx og dafnaði.

Ólafur segir að nú sé Botnsreitur nú fullu útplantaður og þá hafa ný verkefni tekið við, svo sem að grisja skóginn, hreinsa svörðinn o.fl. Nú allra síðustu ár hefur verið unnið að grisjun skógarins og er búið að rífa allar girðingar frá reitnum neðan Botnsvegar og gera frumteikningar að þeim hluta Botnsreits sem ætlaður verður til afnota fyrir almenning. Bílastæði var komið upp við Botnsreit árið 2007.

 

Miklir möguleikar

„Botnsreitur er einstakur og miklir möguleikar eru á að gera hann ákjósanlegan sem fjölskylduvænt útivistarsvæði. Þarna eru grónar flatir, lækur, foss, klettar og fjölbreytt trjáflóra og í framtíðinni er fyrirhugað að þarna komi gangstígar og barnaleikvellir,“ segir Ólafur, en Rótaryklúbbur Akureyrar hefur nýtt Botnsreit fyrir samkomu innan klúbbsins á hverju sumri í allmörg ár.

Nýjast