Frú Ragnheiður býður upp á nýliðanámskeið fyrir sjálfboðaliða

Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir hópstjórar í verkefninu Frú Ragnheiður, skaðaminnkandi v…
Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir hópstjórar í verkefninu Frú Ragnheiður, skaðaminnkandi verkefni á vegum Rauða krossins við Eyjafjörð

„Við þurfum að hafa um það bil 25 til 30 manns í okkar sjálfboðaliðahóp, það má ekki minna vera,“ segja þær Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir hópstjórar hjá verkefninu Frú Ragnheiður sem Rauði krossinn við Eyjafjörð starfrækir. Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar og er lögð áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna. Nýliðanámskeið fyrir sjálfboðaliða verður haldið dagana 6. og 7. október frá kl. 17 til 22 í Rauða krosshúsinu við Viðjulund.

„Við erum að leita að fólki sem hefur áhuga fyrir að leggja okkur lið. Þetta verkefni er þannig að við þurfum að hafa talsvert af fólki í kringum það. Við höfum til umráða bíl og þurfum að manna þrjár vaktir á viku. Það eru tveir á vakt hverju sinni og við reynum að hafa annan starfsmanninn með heilbrigðismenntun af einhverju tagi, lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkra- eða bráðaliða sem dæmi,“ segja þær. Sjálfboðaliðar þurfa að hafa náð 20 ára aldri.

Ekkert þak

Þær segja misjafnt hversu vel gangi að fá sjálfsboðaliða til liðs við verkefnið, stundum vel og á öðrum tíma er lakari þátttaka. Ekki er sett þak á fjölda þátttakenda á hverju námskeiði en um 50 manns hafa mætt þegar fjöldinn er mestur. „Sumir koma á námskeiðið til að sækja sér fróðleik, kynnast verkefninu og fá betri innsýn í það sem við erum að fást við. Það getur gagnast hverjum sem er að sækja námskeiðið þó viðkomandi taki ekki beinan þátt í því,“ segja þær.

Á námskeiðinu verða fyrirlestrar frá m.a. geðhjúkrunarfræðingi, iðjuþjálfa, fulltrúa SÁÁ og ýmsum fleirum sem málið varðar en að auki kynna Berglind og Edda verkefnið. Þær þekkja það enda best, hafa verið við stjórnvölinn frá upphafi, en það hófst sem tilraunaverkefni í janúar árið 2018 og hefur verið í gangi upp frá því. „Það sýndi sig fljótt að þörf var fyrir þessa þjónustu og við höfum fundið fyrir miklu þakklæti frá okkar skjólstæðingum,“ segja Berglind og Edda.

Hildur og Sigrún eru í hópi sjálfboðaliða Frú Ragnheiðar.

Margvíslegur ávinningur

Frú Ragnheiður þjónustar einstaklinga með erfiðan fíknivanda, veitt er heilbrigðisaðstoð, sálrænn stuðningur og nálaskiptiþjónusta. Einnig er hægt að nálgast hlý föt og næringu. Markmiðið með verkefninu er að koma í veg fyrir óafturkræfan skaða og ótímabær dauðsföll af völdum vímuefnaneyslu, sem og að auka lífsgæði þeirra sem nota vímuefni í æð og bæta heilsufar þeirra með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinganna. Meðal ávinnings af verkefninu nefna þær að tíðni sýkinga og útbreiðsla smitsjúkdóma,m.a. HIV og lifrabólgu C hefur lækkað, neysluhegðun er ábyrgari og minna er um notaðar sprautur í almenningsrýmum.

„Við dreifum nálaboxum undir notaðar nálar og fólk er duglegt að skila þeim inn, það er til fyrirmyndar,“ segir þær en þeim er síðan komið til förgunar á viðeigandi stað. Um nokkurra ára skeið hefur nefúðanum Nyxoid verið dreift meðal vímuefnaneytenda og hafa þær haft af því spurnir að hann hafi bjargað mannslífum.

Berglind og Edda segja marga skjólstæðinga Frú Ragnheiðar búa við erfiðar aðstæður og vissulega sé það mörgum um megn að horfa upp á þær. Þannig þurfi sjálfboðaliðar að hafa sterk bein og mikinn vilja til að láta gott af sér leiða fyrir þann hóp sem höllustum fæti stendur í okkar samfélagi.

Frú Ragnheiður hefur til umráða bíl sem farið er á milli staða og skjólstæðingum mætt þar sem þeir kjósa

Nýjast