Námskeið þetta verður haldið nk. laugardag og hefst kl. 09.00 í húsakynnum Súlna við Hjalteyrargötu á Akureyri. Þar verður farið í gegnum bóklega þætti , þ.e. hvernig meta eigi hættur og fleira. Eftir hádegi verður haldið uppá Súlumýrar á vélsleðum þar sem sérfræðingar frá Súlum hafa búið til nokkra vettvanga snjóflóða. Þar læra menn að nota þau tól sem ætlast er til að allir vélsleðamenn hafi meðferðis í fjallaferðum í dag, snjóflóðaýli, leitarstöng og skóflu. Án þessara hjálpartækja er leit í snjóflóði nánast útilokuð, segir í fréttatilkynningu.