Sláturtíð gengur vel hjá Norðlenska

Meðalvigt dilka sem slátrað hefur verið fram til þessa hjá Norðlenska á Húsavík er örlítið lægri en var á sama tíma í fyrra, en holdfylling er meiri sem og fita.  Sláturtíð hefur gengið vel enda húsið vel mannað hæfu starfsfólki með mikla reynslu.  

Sigmundur Hreiðarsson vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík segir að verkun á kjöti sé til fyrirmyndar og til undantekninga heyri að fram komi fláningsgalli á skrokk.  Vinnubrögðin séu starfsfólki til sóma og fylgt sé eftir mjög góðri verkun á síðustu sláturtíð. Sláturflutningar hafa gengið vel það sem af er hausti, enda valinn maður í hverju rúmi að sögn Sigmundar, en um flutninga á sauðfé sjá öflugir aðilar með mikla reynslu.  Hann segir að fyrirtækið hafi undanfarin misseri lagt mikla áherslu á að hafa úrgangsmál í sem bestu horfi og það hafi lagt út í umtalsverðan kostnað til að ná árangri, minnka kostnað sem fylgir förgum með því að minnka umfang sorps.

Hjá Norðlenska á Húsavík er unnið að því að fullverka og salta garnir til útflutnings og einnig eru hálfverkaðar vambir frystar.  Sú starfsemi skapar 7 störf.  Alls starfa um 140 manns við slátrun og vinnslu hjá félaginu, stór hluti þess kaupir vörur og þjónustu á svæðinu þá tvo mánuði sem sláturtíð stendur yfir og segir Sigmundur að það muni um minna.  „Það er ljóst að starfsemi af þessu tagi skiptir samfélag okkar miklu máli og því mikilvægt að bændur og starfsfólk standi vel saman þannig að hægt sé að efla fyrirtækið enn frekar," segir Sigmundur. Áætlað er að sláturtíð ljúki þriðjudaginn 26. október komi ekkert óvænt upp á og að þá verði búið að slátra um 76.000 fjár.

Nýjast