Ein óvæntustu úrslit handboltavertíðarinnar litu dagsins ljós í Höllinni í kvöld þegar Víkingar lögðu heimamenn í Akureyri 27-25 og unnu þar með sinn fyrsta sigur í deildinni. Hrikalegur lokakafli í fyrri hálfleik varð Akureyri að falli í kvöld fyrir framan um 7-800 áhorfendur sem héldu upp í góðri stemmningu.
Leikurinn byrjaði ágætlega á hjá Akureyri sem hafði yfir 6-5 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Þá kom sennilega einn skelfilegasti kafli sem liðið hefur spilað í vetur þar sem Víkingar skoruðu 9 mörk gegn einungis einu marki Akureyringa og höfðu sjö marka forystu í hálfleik 14-7.
Akureyri hóf seinni hálfleik af miklum krafti og gat jafnað þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður en skot Andra Snæs Stefánssonar var þá varið af góðum markverði Víkinga. Upp frá þessu virtust heimamenn missa dampinn á ný og Víkingar náðu aftur þriggja marka forystu sem hélst nánast til leiksloka. Mikil spenna hljóp í leikinn þegar Akureyri náði að minnka muninn í tvö mörk þegar um 2 mínútur voru eftir en þá lét Goran Gusic reka sig útaf á afar klaufalegan hátt. Víkingar áttu ekki í miklum vandræðum með að innbyrða sigurinn einum fleiri, lokatölur 27-25.
,,Þetta var í einu orði sagt hrikalegt, við byrjuðum ágætlega í vörninni en smám saman fjaraði undan okkur þar, fyrir utan nokkra kafla. Sóknarlega náðum við okkur aldrei og strik og vorum skelfilegir. Það eru auðvitað mikil vonbrigði að tapa fyrir framan allt þetta fólk en ég hef enga trúa á öðru en að það fjölmenni á næsta heimaleik og sjái okkur gera betur, því þetta er þrátt fyrir allt mikil og ódýr skemmtun," sagði Jónatan Magnússon eftir leik.
Jónatan var langbesti maður Akureyrar í leiknum og skoraði 16 mörk, þar af 10 úr vítum. Raunar komust einungis þrír aðrir á blað, Oddur Gretarsson með 4 mörk, Hörður Fannar Sigþórsson 4, öll þeirra eftir sendingar Jónatans og Rúnar Sigtryggsson 1.
Markverðir Akureyrar, þeir Hörður Flóki Ólafsson og Hafþór Einarsson náðu sér engan veginn á strik og vörðu samtals 8 skot.
Heimamenn gerðu alltof mörg ódýr mistök til að eiga eitthvað skilið úr leiknum í kvöld, Víkingsliðið var alls ekki að spila vel en hafði baráttuna fram yfir heimamenn sem skilaði þeim sigrinum í kvöld. Óhætt er að segja að Akureyri verði að spila betur þegar liðið mætir Val á útivelli í næsta leik deildarinnar. Næsti heimaleikur er hins vegar 5. febrúar gegn Fram.