Skipverji á Sólbak EA slasaðist alvarlega á hendi

Skipverjinn sem slasaðist um borð í Sólbak EA-1, vestnorðvestur af Barða í gærkvöld, klemmdist illa á hendi. Hann ber varanlegan skaða eftir slysið, en hann klemmdi hönd sína á milli toghlera og lunningar. Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar var send eftir manninum, en hún neyddist til að snúa við vegna veðurs. Sólbakur sigldi því að landi og var maðurinn fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem hann fór í aðgerð í nótt.  

Þorsteinn Jóhannesson, yfirlæknir á sjúkrahúsinu á Ísafirði, segir í samtali við mbl.is, að þetta mál sýni að það sé þörf á að reka öflug sjúkrahús á landsbyggðinni. „Við vitum það sem búum úti á landi að stundum komast menn ekki lönd né strönd í marga daga," sagði Þorsteinn. Hann sagði að maðurinn færi í framhaldsmeðferð í Reykjavík síðar, en ljóst væri að hann myndi bera varanlegan skaða á hendinni eftir slysið. Þó maðurinn hafi slasast alvarlega var hann aldrei í neinni lífshættu.

Nýjast