Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opið á milli jóla og nýárs

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opið á milli jóla og nýárs og verður opið á annan dag jóla á milli kl. 11 og 16. Að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns í Hlíðarfjalli eru aðstæður í fjallinu eins og best verður á kosið og því kaldara sem er í veðri því betri aðstæður til skíðaiðkunar.  

Á milli jóla og nýárs verður opið í Hlíðarfjalli frá mánudegi til fimmtudags milli kl. 10 og 19, á gamlársdag frá kl. 10-15 og á nýársdag frá kl. 11-16. Í dag, aðfangadag er hins vegar lokað. Á gamlársdag stendur til að vera með blysför niður skíðabrekkurnar, þegar gestir fara síðustu ferð ársins um kl. 14.45. Þetta er gert í samtarfi við Súlur, björgunarsveitina á Akureyri. Skíðasvæðið var opnað formlega þann 18. nóvember og segir Guðmundur Karl að skíðasvertíðin hafi farið vel af stað en þó hafi veður verið rysjótt í desember, með hláku eða hríð.

Nýjast