Skatttekjur Akureyrarbæjar um 6,6 milljarðar á næsta ári

Tekjur aðalsjóðs Akureyrarbæjar eru áætlaðar 11.004 milljónir króna á árinu 2011 samanborið við 10.904 milljónir á árinu 2010. Tekjurnar skiptast þannig að skatttekjur eru áætlaðar rúmir 6,6 milljarðar, framlög jöfnunarsjóðs 834 milljónir og aðrar tekjur rúmir 3,5 milljarðar króna. Auk þessa er gert ráð fyrir að fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld verði tæplega 767 milljónir króna.  

Að teknu tilliti til fjármagnstekna er rekstrarniðurstaða aðalsjóðs neikvæð um 281 milljónir króna. Hins vegar er halli á rekstri A-hluta sem nemur tæpum 381 milljónum króna. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár, sem lögð var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn sl. þriðjudag. Sem fyrr fer stærstur hluti af tekjum aðalsjóðs til reksturs fræðslumála eða 4,3 milljarðar króna sem gera um 50% af heildarútgjöldum. Til viðbótar koma ríflega 11% sem aflað er með þjónustugjöldum, s.s. gjöldum fyrir dagvistun og leikskóla, gjöldum fyrir frístund og skólamáltíðir og gjöldum fyrir tónlistarnám. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir lækkun á framlögum aðalsjóðs á milli áranna 2010 og 2011 um 99 milljónir króna en þessi hagræðing næst með aðhaldi og sparnaði í leik- og grunnskólum bæjarins. Gert er ráð fyrir að leikskólagjöld hækki og hlutur foreldra verði eftir hækkun um 17,5% af heildarkostnaði hvers barns. Ákveðið hefur verið að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við níu mánaða aldur barns í stað tólf mánaða eins og nú er.

Akureyrarbær mun verja tæpum 2,6 milljörðum króna til félagslegrar þjónustu á næsta ári. Akureyrarbær sinnir öldrunarþjónustu, málefnum fatlaðra og heilsugæslu fyrir ríkið samkvæmt þjónustusamningum. Heilsugæslan og Öldrunarheimilin eru rekin sem sjálfstæðar einingar og renna greiðslur frá ríkinu vegna þeirra beint til þeirra eininga. Hins vegar er í áætluninni gert ráð fyrir að ríkið greiði 977 milljónir króna til aðalsjóðs vegna reksturs málefna fatlaðra og 139 milljónir króna vegna greiðslu húsaleigubóta. Rúmlega einum milljarði króna af skatttekjum verður því varið til félagslegrar þjónustu á árinu.

Samkvæmt áætlun mun rúmlega 760 milljónum króna verða varið til menningarmála á næsta ári. Um er að ræða 118 milljóna króna aukningu í málaflokknum á milli ára en aukin útgjöld nema alls um 148 milljónum vegna tilkomu Hofs. Má því segja að um hagræðingu að upphæð 30 milljónir króna sé að ræða í rekstri málaflokksins. Kostnaður vegna málaflokksins er að mestu leyti greiddur með skatttekjum, eða um 610 milljónir, en ríkið leggur 120 milljónir króna til Akureyrar samkvæmt menningarsamningi ríkis og bæjarins.

Íþrótta- og tómstundamál eru þriðji dýrasti málaflokkurinn og sá sem tekur næstmest til sín af skatttekjum eða 1.262 milljónir. Áætlaður heildarkostnaður málaflokksins er um 1,7 milljarðar og er stærstur hluti hans, rúmlega 1,2 milljarðar króna, greiddur af skatttekjum aðalsjóðs. Aukning á fjárveitingu til málaflokksins nemur um 50 milljónum og eru þær að mestu leyti tilkomnar vegna Íþróttamiðstöðvarinnar við Giljaskóla sem nýlega var tekin í notkun. Gert er ráð fyrir hagræðingu í málaflokknum upp á 64 milljónir króna.

Verið er að taka upp algjörlega nýjar aðferðir varðandi úrgang frá heimilum. Verið er að stórauka endurvinnslu og minnka sorp til urðunar. Til þessa málaflokks verður varið um 189 milljónum króna á árinu 2011. Skiptist kostnaðurinn í sorphreinsun, gámasvæði, sorpeyðingu og jarðgerð. Gert er ráð fyrir að sorphirðugjald verði óbreytt frá 2010, eða 22.000 krónur á heimili. Ákveðið var einnig að Akureyrarbær leggi til pokana sem þarf fyrir lífræna úrganginn. Gera má ráð fyrir að þeir kosti 2.500-3.000 krónur á heimili á ári. Sorphirðugjaldið skilar tekjum upp á 159 milljónir en það þýðir að sorphirðugjaldið stendur undir 84% af kostnaði við sorphirðu en sambærileg tala fyrir 2010 er um 80%.

Töluverð útgjaldalækkun er í skipulags- og byggingamálum en þó er gert ráð fyrir að verja 25 milljónum beint í gerð aðal- og deiliskipulags. Áætlunin gerir ráð fyrir að 88 milljónir króna fari í málaflokkinn á næsta ári sem er 12,6 milljónum lægri fjárhæð en árið 2010. Gert er ráð fyrir að rúmlega 450 milljónir renni til umferðar- og samgöngumála á næsta ári. 11 milljónum er bætt í málaflokkinn þrátt fyrir hagræðingu í skrifstofuhaldi. Gert er ráð fyrir sömu fjárhæð í snjómokstur á næsta ári sem og viðhald gatna og þá verður strætó áfram gjaldfrjáls.

Gert er ráð fyrir að til umhverfismála fari tæpum 24 milljónum króna minna en árið 2010. Er þar um að ræða hagræðingu á flestum liðum, en stærsta breytingin er sú að ákveðið hefur verið að bærinn sjái sjálfur um slátt á þremur svæðum af fjórum. Verður af því töluverð hagræðing, auk þess sem bærinn getur með þessu móti útvegað fleirum sumarvinnu. Til atvinnumála er varið 85 milljónum króna að þessu sinni og er það hagræðing um rúmar 10 milljónir frá árinu 2010. Mest er hagræðingin í skrifstofuhaldi. Áætlað er að verja 15,5 milljónum í atvinnuátaksverkefni á næsta ári líkt og áætlað var fyrir árið 2010. Ákveðið hefur verið að loka almenningssalernum undir kirkjutröppunum með tilkomu salerna í Hofi. Þó er gert ráð fyrir að salernin undir kirkjutröppunum verði opin þegar mikið er um að vera í miðbænum.

Nýjast