Sjö milljónir króna til þátttöku í 6 verkefnum

Stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar úthlutaði á dögunum þátttökuframlögum úr Vaxtarsamningi Eyjafjarðar 2008-2010. Er þetta fyrsta úthlutun af þremur á þessu ári. Á samningstímanum er varið 90 milljónum króna úr ríkissjóði í þeim tilgangi að efla nýsköpun atvinnulífsins á Eyjafjarðarsvæðinu og auka hagvöxt með samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.  

Mikil ásókn var eftir verkefnaaðild Vaxtarsamnings Eyjafjarðar en alls bárust 26 umsóknir og var óskað samtals eftir ríflega 57 milljónum króna. Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnisstjóri, segir að umsóknir hafi aldrei verið fleiri og greinilegt að efnahagsástandið hafi mikil áhrif á ásókn í stuðning frá Vaxtarsamningnum. "Við finnum fyrir breyttu efnahagsástandi og breyttu hugarfari fólks, bæði í gegnum Vaxtarsamninginn og einnig í starfi AFE. Fleiri sækja til okkar en áður og meiri alvara og ákefð er á bak við mörg verkefnin núna. Það sem áður voru álitin gæluverkefni eru nú orðin eitt af fáum úrræðum margra til að bjarga sér og þá er að duga eða drepast."

Vaxtarsamningurinn samþykkti að þessu sinni þátttöku í 6 verkefnum og ver til þeirra samtals 7 milljónum króna. Stefna ehf. og Rannsóknarmiðstöð ferðamála fengu úthlutað 1,5 milljónum króna, vegna nýjunar í ferðaþjónustu, sem snýst um að koma upplýsingum til ferðamanna og safna upplýsingum um ferðamenn. Glerárdalshringurinn 24x24, Nonni Travel og Gistiheimilið Glerá 2, fengu úthlutað 1,5 milljónum króna, til að setja upp og selja skipulagðar göngu- og útivistarferðir, einnig vegna leiðarlýsinga, korta og stikun leiða. Mannvit ehf., Orkey ehf., Flokkun ehf., HA, MIT og Orkusetur fengu einnig úthlutað 1,5 milljónum króna, til að þróa aðferð fyrir framleiðslu lífdísils og kanna möguleika á frekari hráefnisöflun.

Sæeyru á Íslandi ehf., Matís og Raftákn fengu eina milljón króna en verkefni þessara aðila lýtur að því að byggja upp arðbært eldi og fullvinnslu á sæbjúgum til manneldis við Eyjafjörð. Sömu upphæð fengu Cees van de Ven, Urtasmiðjan, Marina, Ektafiskur, Bakaríið við brúna, Vélfag, AFE, Studio 6, Dregg Shipping og Raf ehf., til að örva alþjóðleg viðskipti fyrirtækja í Eyjafirði og skapa markaðstækifæri fyrir lítil fyrirtæki erlendis. Þá fengu Markaðsráð Hríseyjar, Eyfar og Akureyrarstofa úthlutað hálfri milljón króna, vegna þróunar á ferðamannastaðnum Hrísey.

Nýjast