Alvöru æfingasirkuslína hefur verið sérsmíðuð fyrir kennsluna. Það hefði ekki verið mögulegt án framlags frá Vélsmiðjunni Hamri, Ásverki, Slippnum Akureyri, Ísneti, Pólyhúðun og Ferrozinki, Menningarráði Eyþings og Rarik sem eru sérstakir styrktaraðilar verkefnisins. Námskeiðið verður haldið í Laugargötu (gamla íþróttahúsinu við Sundlaug Akureyrar). Lokabræðsla Sirkussmiðjunnar mun síðan fara fram í Verksmiðjunni á Hjalteyri þann 19. júlí. Spiluð verður lifandi tónlist við villtan varðeld og mögulega einhverjar kræsingar á boðstólnum. Nýsirkushópurinn "The Shoebox tour" mun troða upp. Þar eru á ferðinni fjórmenningar sem flestir eru meðlimir í Circus Cirkör. Þeir eru m.a. þekktir fyrir að hugsa út fyrir hefðbundið sýningarrými og hafa til að mynda troðið upp í rýmum á borð við skókassa og verður því spennandi að sjá hvað gerist í gamalli fiskverksmiðju.