Fyrirtæki senda starfsmenn á almenn námskeið en þar að auki er alltaf að aukast að Símey útvegi klæðskerasniðin námskeið og fyrirlestra að þörfum og fjárhagsáætlunum hvers fyrirtækis. Námskeiðin eru mislöng allt frá einni klukkustund upp í nám sem er metið til eininga á framhaldsskólastigi og spannar þá fleiri en eina önn.
Fyrstu námskeiðin hefjast 8. og 9. september og segir Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Símeyjar, að allt milli himins og jarðar verði í boði í vetur. "Það er alveg hellingur í boði á vegum fjölda fræðsluaðila, fullt af spennandi tungumálanámskeiðum, svo eru það þessar lengri námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, það er t.d. að hefjast önnur lota í verslunarfagnámi sem er mjög spennandi. Svo má nefna sérhannað nám fyrir matvælaiðnað og framhald á námi til löggildingar í verðbréfamiðlun." Þá mun Símey einnig bjóða upp á spennandi nám í vistakstri, fyrir þá sem vilja læra að spara bensín og aka á umhverfisvænni hátt. Snyrti- og hárgreiðslunámskeið verða í boði og fleira og fleira þannig að það er úr mörgu spennandi að velja.
Hjá Símey er starfandi náms- og starfsráðgjafi sem allir geta pantað viðtal hjá, en það getur verið afar gagnlegt fyrsta skref fyrir þá sem langar að fara af stað í frekara nám, jafnvel eftir langt hlé. "Ráðgjafinn greinir hvar áhugasvið fólks liggur, veitir upplýsingar um þá möguleika sem eru í boði og hjálpar fólki að velja hvað hentar því. Þetta er nokkurs konar áhugasviðsgreining," segir Erla.