Einnig var sambandinu veitt umboð til að gera sameiginlegan samning við Launanefnd sveitarfélaga fyrir hönd félagsins. Unnið var í hópavinnu sem skipt var í hópa eftir starfsgreinum. Áður en hópastarfið hófst fjallaði Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri SGS, um samninga SGS árið 2010-2011 og Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, fjallaði um stöðuna í efnahagsmálum og hvað væri framundan.
Í hópavinnunni voru hafðar til hliðsjónar niðurstöður fjögurra funda sem fram fóru í síðustu viku, en þá voru kallaðir saman allir trúnaðarmenn félagsins. Einnig var stuðst við niðurstöður könnunar sem gerð var sl. vor. Fundurinn var mjög góður og línurnar lagðar hver meginstefna félagsins ætti að vera í komandi kjarasamningaviðræðum. Búið er að boða samninganefndina næst saman þann 5. október nk. þar sem gengið verður endanlega frá stefnu félagsins. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.