Að ósk félags- og tryggingamálaráðuneytisins hefur Tryggingastofnun tekið að sér að fóstra verkefnið. Undirbúningur þess fór fram í samvinnu við ÖBÍ, MND félagið, velferðarsvið Reykjavíkur, Ráðgjafarmiðstöð krabbameinsfélagsins, Landspítala og Kristínu Sólveigu Bjarnadóttur, hjúkrunarfræðing á Akureyri.
Hugmyndin er byggð á meistaraverkefni Kristínar Sólveigar frá 2007, „Remember that I am Still Alive". Living with Incurable, Life-Threatening Disease and Positive and Negative Influences on Perceived Quality of Life, A Penomenologcal Study, sem hún vann með sjúklingum með ólæknandi, lífsógnandi sjúkdóma. Niðurstöðurnar benda til að fólki í þessari stöðu finnist erfitt að leita réttar síns í völundarhúsi hins opinbera kerfis, hafi þungbærar fjárhagsáhyggjur og gangi illa að láta enda ná saman á bótum. Þannig fari dýrmætur tími og orka í glímu við kerfið.
Hægt er að nálgast þessa þjónustu eftir nokkrum leiðum.
Þjónustan felst í viðtali við sérþjálfaðan ráðgjafa. Viðtalið getur farið fram í síma, hjá Tryggingastofnun á Laugavegi 114 eða annars staðar sem sjúklingur og ráðgjafi koma sér saman um og á tíma sem báðum hentar.Í viðtalinu er miðað við persónulegar þarfir hvers og eins varðandi kerfið í heild, þ.e. þjónustu og fjárhagsstuðning ríkis og sveitarfélaga, félög og samtök sem bjóða stuðning og þjónustu, sjálfstætt starfandi sérfræðinga og fyrirtæki sem gott er að vita af. Áætlaður tilraunatími er til 31. maí 2011 og er gert ráð fyrir mati á árangri á miðju tímabilinu.