Sérfræðihjúkrun eflir heilbrigðisþjónustu í dreifbýli

Jóna Ósk Antonsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá HSN í Reykjahlíð     Mynd hsn.is
Jóna Ósk Antonsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá HSN í Reykjahlíð Mynd hsn.is

Hjúkrunarfræðingar á litlum heilsugæslum í dreifbýli sinna oft fjölbreyttari verkefnum en á stærri stöðum. Jóna Ósk Antonsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá HSN í Reykjahlíð, hefur nýlokið meistaragráðu frá Háskólanum á Akureyri með áherslu á heilsugæslu á landsbyggðinni frá Háskólanum á Akureyri.

Hjúkrunarfræðingar á litlum heilsugæslum í dreifbýli sinna oft fjölbreyttari verkefnum en á stærri stöðum. Þar eru læknar stundum bara hluta úr viku til staðar og langt getur verið í næsta sjúkrahús. Verkefnin geta þó verið jafnfjölbreytileg og á stærri stöðum. Jóna Ósk Antonsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá HSN í Reykjahlíð, hefur nýlokið meistaragráðu frá Háskólanum á Akureyri með áherslu á heilsugæslu á landsbyggðinni frá Háskólanum á Akureyri. Hún kynnti nýlega meistaraverkefnið sitt Fyllt í skarðið: Störf sérfræðinga í heilsugæsluhjúkrun í dreifbýli á ráðstefnunni Hjúkrun 2025, þar sem hún velti upp hvort landsbyggðarhjúkrun ætti að vera sérsvið til menntunar.

„Aðstæður og aðgengi að heilbrigðisþjónustu eru öðruvísi á landsbyggðinni en í þéttbýli. Ég er oft ein hér og heimilislæknir kemur aðeins fjóra tíma í viku, og sjúkrabíll getur verið langt í burtu. Því þarf ég að sinna mjög fjölbreyttum verkefnum.“ Þessi staða leiddi hana í meistaranám í heilsugæsluhjúkrun og nú vinnur hún að því að öðlast sérfræðiréttindi í faginu. Hún segir að sérfræðihjúkrun sé lykilatriði til að efla þjónustu og bæta aðgengi á landsbyggðinni: „Við sinnum oft verkefnum sem ekki er endilega gert ráð fyrir að séu á okkar ábyrgð, en í dreifbýli erum við oft eina stoðin og stundum verður fyrir vikið að teygja sig inn á annarra starfssvið sem gerir ábyrgðina meiri.“

Fyrirmyndir sóttar erlendis

Sérfræðihjúkrun hefur verið þróuð í Bandaríkjunum og Kanada í áratugi til að bregðast við læknaskorti á landsbyggðinni sem og biðlistum. „Rannsóknir þaðan sýna að sérfræðingar í hjúkrun auka aðgengi að þjónustu, stytta biðtíma og auka samfellu í þjónustu.“ Ástralía og Nýja-Sjáland eru líka framarlega með þróun í landsbyggðarhjúkrun, en í Evrópu er þetta skemmra komið. Noregur og Írland eru komin hvað lengst í þessum efnum.

Breitt hlutverk hjúkrunarfræðings á landsbyggðinni

Starf Jónu Óskar spannar allt frá ungbarnavernd til lífslokameðferðar - og allt þar á milli. Hún heldur utan um verkskipulag á stöðinni og eftirfylgd meðferða. „Að vera ekki með fasta viðveru læknis getur skapað vissa áskorun fyrir hjúkrunarfræðinga þar sem takmarkaðar heimildir eru til staðar fyrir meðferðir sjúklinga. Við getum í dag, eftir hafa bætt við okkur námi ávísað hormónalyfjum eins og getnaðarvarnalyfjum, en það er eina útvíkkaða heimildin sem við höfum eins í dag. Það er samt viss þróun í gangi hjá HSN til að dreifa starfsálagi betur, eins og í heilsueflandi móttökum, þar sem hjúkrunarfræðingar leiða verkskipulag og meðferð, panta jafnvel blóðprufur og lesa í þær en læknar eru alltaf innan handar og bera endanlega ábyrgð á rannsóknum, lyfjagjöf og auðvitað flóknari málum.“ Rannsóknir erlendis frá sýna góðan árangur af aukinni ábyrgð hjúkrunarfræðinga þegar kemur að meðferð sjúklinga, við að tryggja samfellu og létta af læknum. „Formlegt hlutverk sérfræðihjúkrunar í þessum efnum mynda færa ábyrgð meira yfir á hjúkrunarfræðinga, sem með auknu námi gætu öðlast frekari heimildir til að sinna ákveðnum meðferðum. Erfiðari mál myndu alltaf fara áfram til lækna engu að síður.“

 

Menntun sniðin fyrir þau sem starfa á landsbyggðinni

Háskólinn á Akureyri í samvinnu við HSN og fleiri stofnanir býður upp á sveigjanlegt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun en hjúkrunarfræðingar geta verið í verknámi á launum á meðan á námi stendur. „Ég tel að það ætti þróa betur sérstakt sérsvið í landsbyggðarhjúkrun, því þar eru úrræðin færri og ábyrgðin meiri. Að uppfylltum ströngum kröfum gætu hjúkrunarfræðingar fengið viðeigandi menntun og þjálfun í ákveðnum verkefnum til að ná betur utan um starfið sem líka eflir sjálfstraust þeirra og öryggi í þessum kringumstæðum.“

Minnkar heilsufarslegan ójöfnuð í dreifbýli

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur tekið sérstaklega fram að sérfræðimenntun hjúkrunarfræðinga sé til þess fallin að minnka heilsufarslegan ójöfnuð í dreifbýli og viðkvæmum svæðum. „Þetta er mikið lýðheilsumál. Það er vissulega mikill kostur fyrir minni heilsugæslur eins okkar að vera hluti af stærri stofnun eins og HSN. Það minnkar faglega einangrun og við höfum aðgang að heimilislæknum og öðrum sérfræðingum, en það er ekki það sama og í þéttbýli. Svo er þjóðin að eldast og það verður enn meira aðkallandi verkefni að bregðast við læknaskorti, sérstaklega í dreifðari byggð.“

Að mati Jónu Óskar gæti Ísland átt auðveldara með að innleiða sérfræðihjúkrun en mörg önnur lönd. „Úti í heimi eru flókin greiðslukerfi oft helsta hindrunin, en hér er heilbrigðiskerfið rekið af opinberu fé og við erum með eina sjúkratryggingastofnun, sem gerir ferlið einfaldara. Ýmsar áskoranir fylgja þessu engu að síður; að fá lagalegar heimildir tekur tíma og þarf að skapast einhugur innan kerfisins og meðal heilbrigðisstarfsfólks um að innleiða svona breytingar. En ég tel að við séum í raun í góðri stöðu til að innleiða þetta með góðum árangri.“

Heimasíða HSN birti  fyrst

Nýjast