Selur í heimsókn á Akureyri

Ekker lát er á heimsókn sjávarspendýra á Pollinn við Akureyri. Nú í hádeginu lá þessi myndarlegi kampselur hinn rólegasti á bryggjunni á athvafnasvæði Nökkva við Drottningarbraut. Selurinn vakti mikla athygli vegfarenda en var hinn rólegasti á meðan fólk tók af honum myndir.  

Hlynur Ármannsson útibússtjóri Hafrannsóknastofnunarinnar á Akureyri og Hreiðar Þór Valtýsson lektor í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri rituðu mjög athyglisverða grein í Vikudag í vikunni sem ber heitið; Sjávarspendýr í Eyjafirði - farselir. Þar er að finna fræðandi upplýsingar um selategundir. Um kampselinn segir í grein þeirra félaga:

Kampselurinn er stærstur norrænna sela ef undan er skilinn rostungurinn (sem telst í raun ekki til eiginlegra sela). Kampselir geta orðið 3 metrar að lengd og 300-350 kg. Helsta einkenni hans eru kamparnir en það eru löng ljósgrá veiðihár á trýninu. Fullorðin dýr eru mósvört eða stálgrá með næstum svart bak. Kampselirnir eru einfarar og er fremur lítið vitað um ferðir þeirra. Þeir eru fremur sjaldgæfir flækingar hér við land en virðast þó vera allt að því árvissir gestir hér í Eyjafirði. Kampselirnir halda sig mest á grunnu vatni og eru ýmis botndýr eins og kuðungar og skeljar helsta fæða þeirra. Silungaveiðimenn þurfa því ekki að fara á taugum þó svo að kampselir haldi til í nágrenni veiðiáa. Kampselir liggja oft langtímum á sama stað og láta fátt trufla sig og er því oft hægt að komast nær þeim en öðrum selategundum.

Nýjast