Stöðin mun í byrjun vinna úr um 10.000 tonnum af lífrænum úrgangi á ári, sem skilar um 6000 tonnum af fullunninni moltu. Um er að ræða meira en helming af öllum þeim lífræna úrgangi sem nú fer í urðun á Glerárdal. Hermann Jón Tómasson, formaður stjórnar Moltu ehf., segist sannfærður um að með tilkomu jarðgerðarstöðvarinnar verði stigið mjög stórt framfaraskref í umhverfismálum á Eyjafjarðarsvæðinu. „Við höfum beðið þess lengi að hægt verði að finna aðrar lausnir varðandi lífræna úrganginn, sem er sá hluti úrgangsins sem erfiðast hefur verið við að eiga til þessa. Moltan sem til fellur verður nýtanleg í alls kyns uppgræðsluverkefni en það er einnig mikill vilji til þess hjá Moltu ehf. að þróa frekari úrvinnslu á moltunni í framhaldinu og gera afurðina þannig verðmætari fyrir fyrirtækið. En fyrsti áfanginn eru framkvæmdirnar, að hefja vinnsluna í stöðinni og koma þannig stærstum hluta af lífrænum úrgangi héðan af svæðinu í góðan farveg. Fyrir alla Eyfirðinga verður langþráðum áfanga náð með því að stöð Moltu ehf. kemst í gangið," segir Hermann Jón.
Eins og áður segir verður reist um 1200 fermetra vinnsluhús á Þverá fyrir starfsemi Moltu en öll vinnslan fer fram innan dyra. Tækjabúnaður kemur frá Finnlandi og eru sjálfar jarðgerðartromlurnar sex nú þegar komnar til Akureyrar. Þeim verður komið fyrir á húsgrunninum áður en vinnsluhúsið rís. Áætlanir miða við að verkefnið í heild kosti um 430 milljónir króna. Á aðalfundi Moltu ehf. í byrjun vikunnar var samþykkt heimild til aukningar hlutafjár um 120 milljónir króna en verkefnið verður fjármagnað með hlutafé og lánafyrirgreiðslu frá Byggðastofnun, sem fengist hefur vilyrði fyrir. Feðgarnir Ari Hilmarsson og Jón Bergur Arason, eigendur Þverár Fasteignar ehf., Hermann Jón Tómasson, formaður stjórnar Moltu og Eiður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Flokkunar ehf. undirrituðu samninginn.