Þetta er jafnframt annað árið í röð sem Samherji greiðir um 300 starfsmönnum eingreiðslur umfram kjarasamninga."Það er okkur ánægjuefni að vera í þeirri stöðu þrátt fyrir allt að geta umbunað starfsfólki okkar með þessum hætti nú," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. "Þegar við lítum yfir árið erum við ánægð með hvernig til hefur tekist á flestum sviðum. Okkur hefur gengið vel í markaðsstarfi, verð hefur hækkað á mörgum mörkuðum, birgðir eru í jafnvægi og bæði framleiðslan og fiskeldið hafa gengið vel, "segir hann. Þorsteinn Már segir að þótt á ýmsu gangi á Íslandi, hafi starfsfólki Samherja tekist að halda einbeitingunni, slá hvert framleiðslumetið á fætur öðru og sýna viðskiptavinum fyrir hvað Samherji stendur. "Við seljum virðisaukandi þjónustu til viðskiptavina sem gera miklar kröfur og vilja hámarksgæði með langtíma sjónarmið að leiðarljósi. Í rekstri Samherja fara langtíma hagsmunir starfsfólks og fyrirtækisins saman," segir hann."
Áhyggjuefni mitt er stefna núverandi stjórnvalda í sjávarútvegsmálum, sem ef fram gengur, mun hafa neikvæð áhrif á fyrirtækið og þar með starfsfólkið. Hættan á því að við missum okkar verðmætustu viðskiptavini til samkeppnisaðila í Noregi er raunveruleg. Viðskiptavinir okkar vita eins og við að stefna norskra stjórnvalda í sjávarútvegsmálum er stöðugleiki," segir Þorsteinn Már ennfremur.
Starfsmenn Samherja í landi, sem unnið hafa í fullu starfi í 12 mánuði eða lengur, fá 260 þúsund króna launauppbót. Þeir sem starfað hafa í 6-12 mánuði fá helming þeirrar upphæðar. Uppbótin verður greidd 15. desember nk.