Samherji hefur ákveðið að bjóða starfsfólki að gera samgöngusamning við félagið sem gildir allt árið í stað sjö mánaða eins og undanfarin ár, þetta kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins í dag.
Samgöngusamningurinn kveður á um mánaðarlegan styrk til þeirra sem nota vist- og heilsuvæna ferðamáta til og frá vinnu að jafnaði þrjá daga vikunnar.
Fullur styrkur er 9.000 krónur á mánuði og er skattfrjáls, þar sem ríkissjóður kemur að þessu lýðheilsuverkefni. Formenn tveggja starfsmannafélaga innan samstæðu Samherja fagna breytingunni.
Hvatning um að skilja bílinn eftir heima
Samgöngusamningar hafa staðið starfsmönnum til boða hjá Samherja frá árinu 2020 og hefur þeim fjölgað ár frá ári.
Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja segir að félagið hafi á undanförnum árum sett upp góðar hjólageymslur við starfsstöðvar félagsins, sem auðveldi fólki að skilja bílinn eftir heima.
„Þessir samgöngusamningar hafa almennt fallið í góðan jarðveg. Á þessu ári var í boði að gera samning frá 1. apríl og út október en núna stígum við skrefið til fulls og bjóðum upp á samning alla mánuði ársins. Hvatarnir eru margir út frá lýðheilsu- og umhverfissjónarmiðum. Með vel útbúnum og vistvænum hjólageymslum viljum við hvetja okkar fólk til að skilja bílinn eftir heima og mæta til starfa með umhverfisvænum hætti. Rannsóknir í atferlisfræðum sýna enn fremur að þeir sem hreyfa sig eru að jafnaði ánægðari og hraustari.“
Formenn starfsmannafélaga fagna
Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður starfsmannafélagsins Fjörfisks á Dalvík fagnar lengingu samningsins.
„ Ég á ekki von á öðru en að viðtökurnar verði jákvæðar og margir nýti sér þessa breytingu. Hjólageymslan er vel nýtt og sökum þess að tiltölulega stutt er fyrir marga að ganga í vinnuna er þetta hið besta mál. Ég fagna þessu fyrir hönd starfsfólksins hérna á Dalvík,“ segir Ragnheiður Rut.
Óskar Ægir Benediktsson formaður starfsmannafélags ÚA tekur í svipaðan streng.
„Þetta er bara jákvætt enda hafa nokkrir tugir starfsmanna gert slíkan samning á undanförnum árum. Töluvert margir koma gjarnan gangandi í vinnuna og aðrir hjólandi eða með strætó. Svona samgöngusamningur hvetur fólk til að nota vistvænan ferðamáta og skilja bílinn eftir heima,“ segir Óskar Ægir.