Í framhaldi af yfirlýsingu þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga haustið 2009 skipaði ráðherra nefnd til að kanna sameiningar sveitarfélaga. Skyldi nefndin eiga samstarf við landshlutasamtök sveitarfélaga um verkefnið og meta með þeim mögulega sameiningarkosti. Málið yrði síðan lagt fyrir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga og er það gert með þessu umræðuskjali.
Fram kemur í umfjöllun nefndarinnar að vart hafi orðið við töluverðar viðhorfsbreytingar til sameiningar sveitarfélaga hjá sveitarstjórnarfulltrúum, almenningi, og fjölmiðlum á því tæpa ári sem liðið er frá því átaksverkefnið hófst. Sameiningarumræða hafi farið af stað á ný í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. Nú sé svo komið að öll landshlutasamtök sveitarfélaga nema ein hafi ákveðið að skipa vinnuhópa til að greina sameiningarkosti. Nefnt er að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafi þegar gefið út skýrslu þar sem rætt sé um Vesturland sem eitt sveitarfélag. Sú nálgun og sú aðferðafræði sem þar sé kynnt gæti að mörgu leyti verið notuð sem fyrirmynd fyrir önnur svæði.
Umræðuskjalið hefur að geyma ábendingar um sameiningarkosti í öllum landshlutum. Á Vesturlandi eru settir fram þrír kostir: Eitt sveitarfélag eða tvö og þá yrðu Akranes og Hvalfjarðarsveit saman og hins vegar Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Dalabyggð, Stykkishólmur, Grundarfjörður, Snæfellsbær, Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshreppur.
Á Vestfjörðum eru settir fram nokkrir kostir: Öll sveitarfélögin saman; Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur sameinist annars vegar og hins vegar Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Strandabyggð. Einnig er varpað fram öðrum kostum meðal annars að þrjú sveitarfélög sameinist í aðra landshluta.
Á Norðurlandi vestra er einkum bent á tvo kosti, annars að vegar sveitarfélögin í Húnavatnssýslum sameinist og hins vegar sveitarfélögin tvö í Skagafirði. Á Norðurlandi eystra eru nokkrir kostir settir fram, til dæmis að sameina sveitarfélög við Eyjafjörð og síðan sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum og settir eru fram nokkrir fleiri valkostir.
Þá er bent á mögulega sameiningu allra sveitarfélaga á Austurlandi en á vegum Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi hefur slík sameining verið til náinnar skoðunar. Fleiri kostir eru settir fram og á Suðurlandi er sett fram hugmynd um tvö til þrjú sveitarfélög. Á Suðurnesjum er annars vegar bent á að sameina mætti öll fimm sveitarfélögin í eitt eða að Grindavíkurbær, Sandgerði og sveitarfélögin Garður og Vogar sameinist og þannig verði tvö sveitarfélög á svæðinu.
Höfuðborgarsvæðið er ekki undanskilið í umræðuskjalinu og þar bent á mögulega sameiningu Seltjarnarness, Kjósarhrepps og Reykjavíkur og hugsanlega sameiningu Álftaness og Garðabæjar.