Salka félag ungra jafnaðarmanna harmar skemmdarverk L-listans

Stjórn Sölku, félags ungra jafnaðarmanna á Akureyri, harmar skemmdarverk L-listans sem hefur tekið ákvörðun um að breyta frá áður samþykktri leið í sorpmálum Akureyrarbæjar. Það má með sanni segja að L-listinn, með hjálp nefndarmanns Framsóknarflokksins í umhverfisnefnd, hafi sagt upp um átta þúsund endurvinnslutunnum fyrir íbúa Akureyrar, segir í ályktun félagsins.  

Þar segir ennfremur: Síðasti meirihluti í bæjarstjórn Akureyrar var búinn að samþykkja metnaðarfulla leið í sorpmálum. Ákveðið hafði verið að fara í þriggja íláta sorpflokkun þar sem mest allt endurvinnanlegt sorp og annar úrgangur yrði sóttur til íbúa. Allt virtist stefna í að Akureyri myndi skapa sér sess fremst meðal jafninga í flokkun og endurvinnslu sorps.

Á þriðja fundi framkvæmdaráðs frá því að L-listinn náði meirihluta samþykkti meirihluti nefndarmanna að hverfa frá þessum metnaðarfullu áformum. Meirihluti umhverfisnefndar staðfesti síðan þennan vilja bæjarstjórnarmeirihluta L-listans síðastliðinn fimmtudag með hjálp Framsóknarflokksins. Þessi breyting er sannarlega ekki gerð með hagsmuni íbúa að leiðarljósi sem áfram þurfa að greiða um 15.000 kr. á ári fyrir það að geta sinnt endurvinnslu heima hjá sér og sleppt því að fara á bílnum á grenndarvelli.

Stjórn Sölku hvetur bæjarstjórn til þess að falla frá þessum samþykktum nefndanna. Með þessum samþykktum hafa bæði umhverfisnefnd og framkvæmdaráð dregið verulega úr fyrri áætlunum um stóraukna flokkun heimilissorps og mikilvægi endurvinnslu.  Stjórn Sölku biður einnig forsvarsmenn L-listans að útskýra hvernig þessi ákvörðun hjálpar L-listanum "að leita leiða til að gera t.d. sorphirðu og orkunotkun bæjarbúa vistvænni og framsæknari." eins og stendur í stefnuskrá L-listans.

Nýjast