Saga Capital selur skuldabréf Mosfellsbæjar

Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur lokið við skuldabréfaútboð fyrir Mosfellsbæ. Skuldabréfin voru seld í lokuðu skuldabréfaútboði til lífeyrissjóða og nam útgáfufjárhæðin 600 milljónum króna. Um er að ræða 10 ára afborgunarbréf í opnum skuldabréfaflokki MOS 09 1, sem eftir þessa viðbót nemur 1.600 milljónum króna.  

Með skuldabréfasölunni er Mosfellsbær að endurfjármagna lán bæjarins ásamt því að ljúka nokkrum uppbyggingaverkefnum og stuðla þar með að áframhaldandi framþróun í sveitarfélaginu. Saga Capital Fjárfestingarbanki annaðist bæði umsjón og sölu bréfanna og mun skrá þau í Kauphöll Íslands, NASDAQ OMX á Íslandi. Bankinn hefur að undanförnu verið leiðandi á markaði í sölu skuldabréfa fyrir íslensk sveitarfélög og aðra opinbera og hálfopinbera aðila. Í fyrra gaf Saga Capital út skuldabréf og seldi fyrir samtals 16 milljarða íslenskra króna meðal annars fyrir Kópavogsbæ, Árborg, Landsnet, Eignarhaldsfélagið Farice og Byggðastofnun.

Saga Capital er eini sérhæfði fjárfestingarbanki landsins sem veitir alla almenna fjárfestingarbankaþjónustu svo sem fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfamiðlun, eignaumsýslu, skuldabréfaútboð og fjárfestingaráðgjöf til fyrirtækja, stofnana og annarra fagfjárfesta, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast