SA óska eftir samstarfi við aðila á vinnumarkaði og ríkisstjórn

Á fjölmennum fundi Samtaka atvinnulífsins á Akureyri í morgun um stöðu atvinnumála lýstu formaður SA og framkvæmdastjóri yfir vilja til samstarfs við aðra aðila á vinnumarkaðnum og ríkisstjórnina um að snúa af braut stöðnunar og atvinnuleysis. Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sögðu það löngu tímabært að hefja sókn í atvinnulífinu og skapa ný störf til að endurheimta á næstu árum lífsjör fólks og kveða niður atvinnuleysi.  

Ný störf og sókn í atvinnulífinu er forsenda fyrir því að hægt sé að greiða niður skuldir ríkisins á næstu árum og spara þjóðinni þar með háar fjárhæðir sem fara að öðrum kosti í greiðslu vaxta. Vilmundur sagði á fundinum í morgun sem fram fór á Hótel KEA að vandinn sem þjóðin búi við í dag sé heimatilbúinn og aðgerðaleysi auki enn á vandann. Horfur um fækkun starfa ef ekki verður brugðist við SA kynntu á fundinum nýja könnun meðal fyrirtækja innan SA en samkvæmt henni eru horfur um fækkun starfa á almennum vinnumarkaði ef ekki tekst að snúa þróuninni við. Sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA hyggjast ekki gera breytingar á starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 16% áforma fjölgun starfsmanna en 25% hyggjast fækka þeim. Á árinu 2010 hefur rúmur helmingur fyrirtækjanna haldið óbreyttum starfsmannafjölda, 16% hafa fjölgað en 30% hafa fækkað starfsmönnum.

Nýjast