Samkvæmt sömu heimildum Vikudags verður stöðin á Sólborg nær eingöngu fréttastöð og að flutningurinn þangað muni kosta um 35 milljónir króna. Sparnaður af leigu í núverandi húsnæði við Kaupvangsstræti mun vera um 300.000 krónur á mánuði og það muni því taka um áratug að ná til baka því sem á að sparast við flutninginn. Fram kemur á vef RÚV að í samningum sé einnig viljayfirlýsing um nánara samstarf við háskólann en Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, telur þetta jákvætt skref og sýna vilja til að styrkja svæðisstöðvarnar. Verið sé að snúa vörn í sókn á landsbyggðinni. Samningurinn sé hagkvæmur og húsnæðið henti RÚV mjög vel. Jafnframt sé Ríkistútvarpið með þessu að tengjast frjóu og skemmtilegu umhverfi hjá Háskólanum á Akureyri. Stefán B. Sigurðsson, rektor háskólans, segir einnig á vef RÚV að samstarfið muni styrkja kennslu í fjölmiðlafræði. Semja eigi við Ríkisútvarpið um kennslu og fleira tengt fjölmiðlafræði.