Vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að sýna nokkrar aukasýningar á Rocky Horror, og verður fyrsta sýningin föstudaginn 11. febrúar. Sýningafjöldi verður takmarkaður. Fjöldi glæsilegra listamanna koma fram í sýningunni, sem er hin magnaðasta í alla staði. Má þar nefna Magnús Jónsson sem Frank N Furter, Andreu Gylfadóttur sem Columbiu, Bryndísi Ásmundsdóttur sem Magentu, Eyþór Inga Gunnlaugsson sem fer á kostum sem Riff Raff og Matta Matt (í Pöpunum og Dúndurfréttum) sem Eddie. Lögin úr sýningunni hafa verið gefin út á geisladisk og fást í öllum helstu plötu-, bóka- og matvöruverslunum.
Það er rétt að taka það fram að árið 2011 eru 20 ár síðan Rocky Horror var fyrst sett upp á Íslandi, en þá lék Páll Óskar aðalhlutverkið, þegar sýningin var sett upp í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Leikfélag Akureyrar hefur boðið leikendum þessarar sýningar að koma norður og halda upp á afmælið með því að sjá Rocky Horror í Hofi.
Á Akureyri er úrval gistirýma við allra hæfi. Fjöldi góðra veitingastaða og verslanir. Einnig er tilvalið að nota ferðina norður til að bregða sér á skíði. Valitor og Flugfélag Íslands eru styrktaraðilar Rocky Horror og Flugfélagið býður upp á spennandi pakka fyrir þá sem vilja fljúga norður til að sjá söngleikinn.
Sýningar hjá LA eftir áramót:
Leikfélag Akureyrar mun taka á móti gestasýningunni Jesús litli frá Borgarleikhúsinu, en hún mun verða sýnd í Hofi í janúar. Í lok janúar munu svo Radíus bræðurnir Steinn Ármann og Davíð þór verða í Samkomuhúsinu með hina frábæru sýningu Villidýr og pólitík. Í byrjun mars mun LA svo frumsýna alveg mergjaðan farsa; Farsæll farsi, sem er einhver besti farsi seinni tíma, og skartar öllum bestu eiginleikum farsans, framhjáhaldi, misskilningi, lygum og hurðaskellum. Leikstjóri farsans er einhver dáðasti farsaleikstjóri á Íslandi, María Sigurðardóttir, en hún leikstýrði einnig Sex í sveit, Fló á skinni og Fúlar á móti.