RES Orkuskóli gerir athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar

RES Orkuskóli hefur ýmislegt við skýrslu Ríkisendurskoðunar um RES Orkuskólann að athuga. Ríkisendurskoðun telur að aðeins sé um tvennt að velja þegar kemur að framtíð RES Orkuskólans, að hætta stuðningi við skólann, eða að ríkið yfirtaki skólann og komi starfsemi hans fyrir innan ríkisháskólanna HA og/eða HÍ. Veigamesta athugasemd RES er sú að í ábendingu Ríkisendurskoðunar til ráðuneytisins er ekki bent á þriðju leiðina og þá sem að dómi RES er sú eina sem viðheldur faglegum grundvelli hans.

 

Hún felst í því, líkt og Ríkisendurskoðun bendir á, að Orkuvörður ehf. og ráðuneytið gangi frá fjögurra ára samningi um þróun og uppbyggingu skólans, ásamt því að hlutafé verði aukið. Kostnaður ríkisins við þá leið er tilgreindur í skýrslunni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið segist í skýrslunni hafa ákveðið að styðja ekki RES Orkuskólann. Þessa ákvörðun tekur ráðuneytið án þess að kynna sér sjónarmið RES í málinu og án þess að fyrir liggi nokkur kostnaðargreining vegna þess, segir í yfirlýsingu frá skólanum.

Í skýrslunni er ekkert fjallað um þann mikla ávinning og margfeldisáhrif af starfsemi skólans og það frumkvöðlastarf sem þar er unnið. Ekki er heldur minnst á þá staðreynd að RES Orkuskólinn hefur, með frábærum hætti vegið upp á móti þeim fjölda Íslendinga sem sækja nám erlendis. Mikið þróunar- og nýsköpunarstarf hefur verið unnið við skólann frá árinu 2004. Jafnframt hefur verið byggt upp öflugt tengslanet við rannsókna- og vísindastofnanir, háskóla og fyrirtæki innanlands og utan. Um 35 nemendur erlendis frá bíða þess að hefja nám við skólann í febrúar 2011, en þess má geta að umsækjendur eru á annað hundrað talsins. Öllu þessu starfi er stefnt í tvísýnu með ákvörðun ráðuneytisins nú, segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Nýjast