"Það sem hefur breyst í þessu er að mesta salan á smákökum er í nóvember og á aðventunni. Fólk er að borða smákökur yfir lengri tíma en bara rétt um jólin. Þetta hefur gengið mjög vel og salan hjá okkur jókst í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Ég veit ekki alveg hvernig spilast úr þessu í desember, vegna þeirrar óvissu sem er í þjóðfélaginu en þetta lofar engu að síður góðu," segir Ingólfur.
Eins og gefur að skilja er salan mest á höfuðborgarsvæðinu og þá hefur Ingólfur þá tilfinningu að á minni stöðunum um landið, þar sem hraðinn er minni, sé fólk enn að baka sínar smákökur sjálft. "Við höfum verið að reyna að ná til fólks með því að hafa okkar framleiðslu sem líkasta því sem fólk þekkir frá heimabakstrinum. Fólk er þó enn að baka eina til tvær uppáhaldstegundir sínar en kaupir svo aðrar tegundir til viðbótar."
Kexsmiðjan framleiðir einnig sínar hefðbundnu vörur af fullum krafti, muffins, vínarbrauð og snúða. Þá er að koma á markaðinn ný framleiðsla, hafrakex eins og margir þekkja í heimabakstrinum. "Fljótlega eftir áramót förum við svo að huga að bollabakstri en við sjáum um allan bakstur á vatnsdeigsbollum fyrir Mylluna. Á síðasta ári bökuðum við 640.000 bollur fyrir Mylluna og í þeirri törn er unnið hér á vöktum. Stærstu mánuðirnir í framleiðslunni eru samt júlí og nóvember," sagði Ingólfur.
Þeir félagar Daníel Árnason, Jóhann Oddgeirsson og Eyþór Jósepsson stofnuðu Kexsmiðjuna árið 1996 og hefur Ingólfur verið verksmiðjustjóri frá upphafi. Hann eignaðist síðar hlut í fyrirtækinu en árið 2003 keypti Íslensk Ameríska Kexsmiðjuna af þeim félögum. Ingólfur segir að reksturinn hafi gengið vel frá upphafi, stöðug aukning hafi orðið í framleiðslunni og hann er bjartsýnn á framtíðina. "Það er gott hljóð í okkur, enda eru nú sóknarfæri fyrir íslenska framleiðslu."
Einu störfin sem eru eftir frá baráttunni um ÚA
Í fyrstu var einungis framleitt kex og smákökur í Kexsmiðjunni en fjótlega bættust við ýmsar tegundir af kaffibrauði og hafa neytendur tekið framleiðslu fyrirtækisins vel. Í dag starfa 15 manns hjá Kexsmiðjunni og segir Ingólfur að þau störf séu þau einu sem eftir eru á Akureyri, af þeim störfum sem stofnað var til á sínum tíma í tengslum við baráttu SH og ÍS um sölu á afurðum Útgerðarfélags Akureyringa. SH hafði betur í þeirri baráttu og tók í kjölfarið þátt í fjölga störfum í bænum.
Einnig rekur Íslensk Ameríska söludeild á Akureyri með þremur starfsmönnum. Þeir starfsmenn sjá um sölu á framleiðsluvörum Íslensk Ameríska og innflutningi fyrirtæksins, á Norður- og Austurlandi. Auk Kexsmiðjunnar, rekur Íslensk Ameríska, Frón, Ora og Mylluna.