Rangt að ökumaður hafi misst stjórn á bíl sínum í Víkurskarði

Hugrún Magnúsdóttir, sem var farþegi í jeppabifreið sem lenti í árekstri við snjóruðningstæki á Víkurskarði föstudaginn 24. október sl., segir það alrangt að orsök tjónsins megi rekja til þess að ökumaður jeppans hafi misst stjórn á bíl sínum, eins fram kom í fjölmiðlum, m.a. á vef Vikudags.  

Hugrún sagði að bíll þeirra hafi verið á mjög lítilli ferð þegar ökutækin, sem voru að mætast, skullu saman, enda var skyggni lítið sem ekkert á köflum. Hugrún og sá sem ók jeppanum, slösuðust nokkuð og voru flutt á slysadeild FSA en hún segir þó að þau hafi sloppið hreint ótrúlega vel miðað við aðstæður. Fyrirtæki Stefáns Þengilssonar sér um snjómokstur á Víkurskarði og í samtali við hann á vef Vikudags eftir óhappið, kom fram að ökumaður vörubílsins hafi einnig leitað til slysadeildar, vegna eymsla í hálsi og baki.

Hugrún sagði að ekkert hafi verið að færð þegar óhappið átti sér stað en hins vegar mikill skafrenningur og lítið sem ekkert skyggni. Hún telur að annað hvort hefði átt að loka veginum um Víkurskarð á meðan mokstur fór þar fram við þessar aðstæður, eða þá að þarna hefði ekki átt að vera snjóruðningstæki á ferð nema að vegfarendur væru aðvaraðir á einhvern máta.

Í fréttinni á vef Vikudags sagði Stefán það einnig umhugsunarefni hvort ástæða væri til að reyna halda leiðum eins og um Víkurskarð opnum, þegar veðrið er þetta slæmt. "Það má aldrei slaka á en trúlega verður ekkert gert í þessum málum fyrr enn einhver lætur lífið," sagði Stefán.

Nýjast