Aðeins mínútu síðar var Sigríður Þóra Birgisdóttir sloppin inn fyrir vörn Þórs/KA en skaut boltanum beint á Berglindi Magnúsdóttur í marki heimastúlkna. Arna Sif Ásgrímsdóttir var svo nálægt því að koma Þór/KA yfir á 11. mínútu er hún skaut boltanum í þverslána. Tveimur mínútum síðar fékk Vesna Smiljkovic dauðafæri og var kominn ein í gegnum vörn Aftureldingar en Elizabeth Bassett varði vel í marki gestanna. Eftir þungar sóknir Þórs/KA var ísinn brotinn á 20. mínútu þegar Rakel Hönnudóttir fékk frábæra sendingu frá Matjeu Zver inn fyrir vörn gestanna og skoraði með góðu skoti. Þremur mínútum síðar fengu heimastúlkur svo dæmda vítaspyrnu er brotið var á Vesnu Smiljkovic innan teigs. Bojana Besic fór á vítapunktinn en skaut boltanum framhjá markinu. Það var svo Rakel sem var aftur á ferðinni þegar Þór/KA komst í 2:0 á 26. mínútu, er hún skoraði sitt annað mark í leiknum eftir undirbúning frá Mateju Zver. Staðan 2:0 í hálfleik.
Þór/KA byrjaði seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og Rakel fullkomnaði þrennuna þegar hún kom heimastúlkum í 3:0 eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik. Þór/KA hélt áfram að sækja og leikmenn Aftureldingar áttu fá svör og komust vart fram yfir miðju framan af seinni hálfleik. Á 65. mínútu kom svo mark leiksins þegar Mateja Zver smellti boltanum í þverslána og inn, þónokkrum metrum fyrir utan vítateig og kom Þór/KA í 4:0, sem urðu lokatölur leiksins.