Ráðstefna um menntamál í Íþróttahöllinni á Akureyri

Ráðstefna um menntamál verður haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri föstudaginn 26. september nk.  Tilgangur ráðstefnunnar er að stuðla að samræðu kennara og stjórnenda af öllum skólastigum um ný lög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntun og ráðningu kennara.  

Ný lög fela í sér nýja menntastefnu og er ætlunin að ræða á ráðstefnunni um ný tækifæri sem í henni felast. Á Akureyri og víðar á Norðausturlandi verður starfsdagur í leik- grunn- og framhaldsskólum þennan dag og er gert ráð fyrir því að kennarar þessara skóla mæti á ráðstefnuna. Mikil áhersla er lögð á það við skipulag ráðstefnunnar að skapa kennurum á mismunandi skólastigum tækifæri til samræðu um efni fyrirlestranna. Aðalfyrirlestrarnir fjalla um skólasöguna í ljósi breytinga á menntastefnu, nýja menntastefnu, nýjar áherslur í kennaramenntun og hugarfarsbreytingu í samræðu milli skólastiga. Þá er boðið upp á samhliðafyrirlestra þ.e. 9 fyrirlestra um ýmis menntamál sem fluttir eru samtímis auk þess sem boðið er upp á 47 málstofur. Í málstofunum er fjallað um verkefni sem verið er að vinna í skólunum nú þegar og eru í samræmi við nýja menntastefnu.

Það að ná saman kennurum af öllum skólastigum á einu og sömu ráðstefnuna, með þeim hætti sem hér er gert er einstakt á Íslandi og því verður mjög fróðlegt að sjá hver afrakstur hennar verður. Sambærileg ráðstefna var haldin fyrir tveimur árum en hún var öll minni í sniðum. Sú ráðstefna tókst mjög vel og því eru miklar væntingar bundnar við árangur þessarar  ráðstefnu.

Ráðstefnan er öllum opin en sendar hafa verið út auglýsingar til allra fræðslumiðstöðva, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Að ráðstefnunni standa Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Þekkingarsetur Þingeyinga, Bandalag kennara á Norðurlandi eystra, Félag skólastjóra á Norðurlandi eystra, Félag leikskólakennara 6. deild, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Háskólinn á Akureyri og Skóladeild Akureyrarbæjar.

Nýjast