Páll Viðar: Stór stund fyrir Þór

„Mér líður bara mjög vel og er montinn. Sennilega bulla ég bara eitthvað en það verður bara að hafa það,” sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs við Vikudag, hrærður eftir frækinn 9:1 sigur sinna manna gegn Fjarðabyggð á Þórsvelli í dag í lokaumferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Þórsarar tryggðu sér sæti í úrvalsdeildinni að ári með sigrinum. „Ég er mjög stoltur yfir því að vera Þórsari í dag og er mjög stoltur af strákunum. Það gekk flest allt upp í dag og ég held að strákarnir, stuðningsmenn og Þórsarar eigi þetta skilið. Þetta er stór stund fyrir Þór,” segir Páll.

Þorsteinn Ingason fyrirliði Þórs, var að vonum sáttur í leikslok. Það gekk allt upp hjá okkur og við settum upp smá sýningu til þess að skemmta áhorfendum. Það er ekki yfir neinu að kvarta. Við ætluðum pressa á þá strax í byrjun og vonandi fá mark snemma sem gekk upp,” sagði Þorsteinn og hélt í fagnaðarlæti til liðsfélaga sinna, sem væntanlega munu fagna fram eftir nóttu og eitthvað aðeins lengur.

Nýjast