Örvar Samúelsson kylfingur ársins hjá GA

Örvar Samúelsson var valinn kylfingur ársins 2010 hjá Golfklúbbi Akureyrar á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Örvar, sem er nýstiginn upp úr unglingaflokki, varð Akureyrarmeistari í sumar, hann sigrað meistaramót klúbbsins einnig síðastliðið ár og varð níundi á Íslandsmótinu í sumar sem haldið var á Kiðjabergsvelli.

Örvar lék alls á 297 höggum á Íslandsmótinu en hann vakti verðskuldaða athygli á þriðja keppnisdegi, er hann jafnaði vallarmetið. Örvar lék þá hringinn á 68 höggum og deilir vallarmetinu með nýkrýndum Íslandsmeistara, Birgi Leifi Hafþórssyni. Örvar var í keppnissveit GA sem sigraði aðra deild og tryggði sér þar með þátttökurétt meðal þeirra bestu að ári.

Þá hlaut Stefanía Kristín Valgeirsdóttir Háttvísisbikarinn 2010 en hann er veittur þeim unglingi sem uppfyllir kröfur um háttvísi, prúðmennsku og framfarir í golfþíþróttinni. Stefanía varð í 2. sæti í Meistaramótinu í sumar en þar keppti hún í meistaraflokki. Hún endaði í 6. sæti í sínum flokki á Íslandsmóti unglinga í Vestmannaeyjum. Hún varð Norðurlandsmeistari stúlkna í flokki 17-18 ára  í Norðurlandsmótaröðinni í sumar og var í sveit GA sem hafnaði í þriðja sæti í flokki 18 ára og yngri.

Nýjast