Karaókímaraþonið sem hófst í Norræna húsinu í Reykjavík í gær hefur vakið mikla athygli. Reyndar hefur verkefnið undið töluvert upp á sig, því ákveðið hefur verið að setja upp slík karaókímót víðar um land. Brekkukoti, Brekkugötu 7a á Akureyri, hefur t.d. verið umbreytt í glæsilegan karaóki-skemmtistað með frumorku í lofti. Þar hefst mikil maraþonkaraóki- og söngveisla kl. 20 á morgun laugardag.
Einnig hafa borist fregnir af karaókí- og orkuauðlindasamkomum í Bolungavík, Skagaströnd og Selfossi og einhverjar fregnir berast um samkomur á Suðurnesjum, Stykkishólmi, á Höfn og á Egilsstöðum, segir í fréttatilkynningu. Karaókímaraþonið hófst í gær klukkan 15.00 á glimrandi dúettum í Norræna húsinu eftir þéttsetinn blaðamannafund þar sem Björk Guðmundsdóttir sat í pallborði við hliðina á Ólafi Stefánssyni handboltaheimspekingi, Oddnýju Eir og Jóni Þórissyni sem standa á bak við áskorun á orkuauðlindir.is auk Bjarkar. Einnig sátu í pallborði Hilmar Örn Hilmarsson Allsherjargoði og Ómar Ragnarsson, frumafl. Það var skýrt kveðið að orði af öllum þátttakendum pallborðs: Orkuauðlindirnar eiga að vera í lögsögu og þágu almennings í landinu en ekki lokaðra hagsmunahópa. Það þarf að rannsaka spillinguna sem felst í sölunni á þriðju stærstu orkuauðlind landsins og skýra stöðu mála fyrir opnum tjöldum svo við getum komið okkur saman um framtíðar orkustefnu og lög um auðlindir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Undirtektirnar hafa verið magnaðar: undirskriftir á orkuaudlindir.is komnar upp í tæplega 29.000 og stefnt er hærra.