"Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir okkur, þetta er komið í reglugerð og er orðin skylda en það er búið að seinka gildistökunni þannig að nemar þurfa ekki að fara í þetta fyrr en hún hefur tekið gildi." Ingvar segir að ökukennarar hafi barist fyrir ökugerði í mörg ár. "Ökukennarafélagið hefur barist fyrir þessu í Reykjavík í áratug eða meira."
Þá segir Ingvar að hugmyndin sé sú að sérstakir bílar verði í ökugerðinu fyrir nemendur. "Þá eru bara sérstakir bílar á staðnum til þess að taka "skrans" beygjur í lausamöl eða í hálku." Ingvar segir að nemendurnir muni vera undir ströngu eftirliti í ökugerðinu og það sé engin hætta á að menn séu að keyra á aðra bíla því þetta sé í vernduðu umhverfi og tilvonandi ökumenn fái góða tilfinningu fyrir bílnum.
"Þannig að þetta er allt saman til þess að undirbúa ökumenn fyrir óvæntar aðstæður, t.d. þegar það fer að snjóa og í lausamöl," segir Ingvar. Þá segir hann að ökukennarar komi til með að þurfa að borga sig inn á svæðið þegar að því kemur en kostnaðurinn muni svo færast yfir á nemendur. "Það liggur í hlutarins eðli, þarna fara fram ökutímar sem annars hefðu farið fram annars staðar," segir Ingvar.
Björn Vilhelm Magnússon vonast til að ökugerðið komist í gagnið sem fyrst. "Þetta er búið að tefjast svolítið frá upphaflegum plönum en verður bara að hafa sinn gang." Hann segir tilganginn með ökugerðinu vera að skila hæfari ökumönnum út í umferðina og að þar sé hægt að koma upp aðstæðum til að undirbúa nemendur fyrir óvæntar uppákomur í umferðinni. Þá segir Björn að ökutímarnir í ökugerðinu verði hrein og klár viðbót við hefðbundna ökutíma og því má reikna með að ökuleyfisgjaldið fyrir nemendur hækki. "Eitthvað hlýtur þetta að kosta," segir Björn.