Oddur Gretarsson, handboltamaður hjá Akureyri, segist vita af áhuga frá liðum í Þýskalandi sem vilja fá hann í sínar raðir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Oddur segir í blaðinu einna helst hafa heyrt af liðum frá þýsku 2. deildinni en vill ekki gefa upp hvaða lið það eru.
Engar samningaviðræður hafa átt sér stað og segir Oddur að langt sé í það stig. Hann stefni þó vissulega á atvinnumennsku í framtíðinni en það gæti gerst á næsta ári eða síðar.
„Ég er bara tvítugur og ferillinn rétt að byrja. Ég ætla ekkert að drífa mig neitt heldur fara út þegar ég tel að það sé rétt,“ segir Oddur.