Nýtt hjúkrunarheimili verður reist við Vestursíðu

Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í morgun, með 3 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Guðmundar Baldvins Guðmundssonar og Njáls Trausta Friðbertssonar, að breyta fyrri ákvörðun bæjarráðs um staðsetningu hjúkrunarheimilis og samþykkti að heimilið skuli reist við Vestursíðu.  

Fulltrúar A-lista, B-lista, D-lista, S-lista og V-lista óskuðu bókað: "Við lýsum undrun okkar á því að sú teikning sem liggur fyrir af hjúkrunarheimilinu skuli falla betur að lóð við Vestursíðu en þeirri lóð í Naustahverfi þar sem búið var að ákveða að byggja húsið.  Hönnunin hefur augljóslega ekki tekið mið af samþykktri lóð.  Af því hlýst að líkindum kostnaður fyrir bæjarsjóð og þess vegna er nauðsynlegt að skýra hvernig á því stendur.  Það hafa bæjaryfirvöld ekki gert."

Formaður bæjarráðs óskaði bókað: "Ástæða fyrir flutningi hjúkrunarheimilisins er að við teljum betra að reisa það í grónu hverfi.  Einnig teljum við æskilegt að staðsetja svona heimili sem víðast um bæinn svo fólk hafi val."

Alls verða byggð 45 ný hjúkrunarrými en ekki er um fjölguna hjúkrunarrýma að ræða í bænum, þar sem leigusamningur vegna Kjarnalundar rennur út árið 2012 en þar eru nú 44 rými.

Nýjast