Ný plata frá Hvanndals- bræðrum að koma út

Hljómsveitin Hvanndalsbræður gefur út sína fimmtu plötu þann 2. júní n.k og ber hún heitið "Knúsumst um stund" og er talsvert frábrugðin fyrri plötum sveitarinnar. Platan er aðallega frábrugðin þeim fyrri vegna tilkomu nýrra meðlima þeirra Valmars Valjaots Hvanndal sem leikur á fiðlu og harmonikku og Péturs Hvanndal sem leikur á rafgítar og mandolín. Sem fyrr eru fíflin Rögnvaldur Gáfaði (Gítar), Sumarliði (Bassi) og Valur (Trommur) enn til staðar. Á plötunni er að finna 14 stórskemmtileg lög og eitthvað fyrir alla, rokk og ról, fallegar ballöður og einstaka vals sem hentar vel á dansleikjum eldri borgara. Platan fjallar meira og minna um ástina í sínum fjölbreyttu myndum og þannig er að finna lög á borð við Greddan, Heimilisofbeldi, Ligg og græt, Knúsumst um stund, Jafnréttisbaráttan og Ástarvíman. Platan er gefin út af Hvanndalsbræðrum og er m.a. búið að semja við N1 um sölu á plötunni, hún ætti því að fást á vel flestum stöðum landsins. Fjöldi verslana hafa lagt inn pöntun á disknum en aðeins fáar útvaldar fá þó að njóta þeirrar ánægju, en Hvanndalsbræður hafa sett þau skilyrði að ásamt því að verslanir selji diskinn verði þær að geta boðið upp á sálfræðilega aðstoð til viðskiptavina. Það sé oft á tíðum nauðsynlegt fyrir fólk sem kaupir diska með hjómsveitinni, fólk eigi það til að falla í nokkurskonar gleðitrans og nái sér ekki almennilega án aðstoðar. Til að fylgja eftir útgáfu disksins verða bræðurnir með útgáfutónleika á Græna Hattinum 29. og 30. maí og Iðnó í Reykjavík þann 13. júní.

Nýjast